Bjarni: Græðgin mun leiða til annarrar kreppu

12.09.2017 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Það er tímaspursmál hvenær önnur fjármálakreppa ríður yfir, að sögn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. „Hvenær veit ég ekki,“ segir hann í viðtali við vef bresku fréttastofunnar Sky. „Mannfólk gerir mistök og græðgi mun verða til þess að fólk taki slæmar ákvarðanir – það mun gerast aftur,“ segir hann.

Í viðtalinu ræðir Bjarni um aðgerðir íslenskra yfirvalda gegn bankamönnum. Fullyrt er í umfjölluninni að Ísland hafi verið eina landið þar sem brugðist var við efnahagshruninu með því að fangelsa fólk og haft eftir Bjarna að það hafi hjálpað til við að lækna hér sárin í kjölfarið.

Bjarni segist hissa á því að önnur lönd, meðal annars Bretland, hafi ekki fylgt fordæmi Íslendinga. „Ég held að umheimurinn finni fyrir gremju yfir því að málin hafi ekki að minnsta kosti verið rannsökuð,“ er haft eftir honum.

„Ég segi ekki að það hafi verið ástæða til að sækja alla til saka sem tengdust fjármálakreppunni, en mér finnst að hugsanlegir glæpir hafi ekki verið rannsakaðir nægilega annars staðar. Ég er hissa á því hversu miklu skattfé hefur verið varið í að bjarga fjárfestingum einkaaðila, sem var stofnað til með því að lána fé til banka sem var mjög illa stjórnað og ég er líka hissa á því hversu lítið var gert í mörgum löndum til að rannsaka og saksækja hugsanlega lögbrjóta,“ segir forsætisráðherrann íslenski.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ólafur Þór: Hélt að Bretar myndu gera meira

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, sem áður var sérstakur saksóknari um bankahrunið, er sama sinnis í viðtali við Sky. Hann segist hissa á að Bretar hafi ekki farið svipaða leið og Íslendingar og kveðst gruna að til þess hafi skort pólitískan vilja.

„Ég hélt að Bretar myndu gera meira, en stofnanirnar þar í landi hefðu þurft aukið fjármagn til þess,“ segir Ólafur, og veltir fyrir sér hvort ábyrgðin sé stjórnmálamanna og annarra sem stýra ríkiskassanum. „Ef það á að ráðast í verkefni af þessu tagi þá er fyrst á dagskrá að fjármagna það og sýna vinnunni þolinmæði,“ segir hann.

Í greininni segir að um 200 manns hafi verið rannsakaðir af íslenskum yfirvöldum í kjölfar hrunsins og nokkrir tugir dæmdir fyrir lögbrot. Ekki séu allir sáttir við þetta. Sumir hinna dæmdu telji að þeir hafi verið notaðir sem blórabögglar fyrir ríkisstjórnina – hafi verið sóttir til saka til að sefa reiði almennings – og einhverjir hafi farið með mál sín fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Rætt er við Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, sem hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða og eins árs hegningarauka í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Í greininni segir að Sigurður sé enn sannfærður um að hann hafi ekkert gert rangt.

„Því miður hef ég glatað trú á íslenskt réttarkerfi og dómstóla. Ég hef verið dæmdur tvisvar án nokkurra minnstu sannana,“ er haft eftir Sigurði, sem segir að lögum hafi verið breytt afturvirkt og að kerfið sé spillt.

Einnig er vitnað til Jóns Steinars Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem segir í samtali við Sky að íslenskir bankamenn „hafi ekki fengið sanngjarna meðferð“.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV