Bitinn af rottu í vesturbæ Reykjavíkur

22.05.2014 - 13:55
Mynd með færslu
Rotta lék lausum hala á Melhaga í vesturbæ Reykjavíkur í dag eða allt þar til tveir unglingar náðu að veiða hana í kassa frá nágrannakonu sinni. Rottunni hafði þá tekist að bíta annan þeirra í puttann. Nokkrir íbúar við götuna höfðu séð til rottunnar - einn þeirra reyndi að slá til hennar með skóflu

Hetjur dagsins á Melhaga eru án nokkurs vafa Kolbeinn Egill Þrastarson og Ómi Freyr, fimtán ára unglingspiltar í Hagaskóla. Þeim tókst að fanga rottu sem gert hafði íbúum við götuna lífið leitt.  

Kolbeinn Egill komst ekki óskaddaður frá leitinni að rottunni - hún beit hann í puttann og er Kolbeinn í þessum töluðu orðum á slysadeild Landspítalans þar sem hann bíður eftir því að gert verði að sári hans. 

Móðir Kolbeins, Guðbjörg G. Jakobsdóttir, segir í samtali við fréttastofu að sonur sinni hefði séð rottuna hlaupa niður kjallaratröppu. Hann hefði fyrst haldið að þetta væri mús og beygt sig niður til að sjá hana aðeins betur. Í ljós kom að þetta var rotta.

Rottunni var ekkert um athyglina gefið og beit Kolbein. Hann lét hana hanga í stað þess að reyna slíta dýrið af og þegar hún losaði sig hvæsti hún á unglinginn. 

Kolbeinn lét þetta ekki á sig fá. Hann fékk aðstoð frá vini sínum Óma Frey, þeir fengu kassa frá nágrannakonu og veiddu kvikindið í sameiningu. Í framhaldinu var kallað á lögreglu sem fékk meindýraeyði á svæðið. Hann sá til þess að rottan angrar íbúa við Melhaga ekki framar.