Birti þúsund myndir utan úr geimnum

01.03.2016 - 23:30
Geimfarinn Scott Kelly snýr heim í nótt eftir ársdvöl í geimnum. Kelly fær far með rússnesku geimfari til jarðar.

Þessa stundina eru geimfararnir Scott Kelly, Mikhail Kornienko og Sergei Volkov að búa sig undir að snúa aftur til jarðar úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Fyrr í dag lét Kelly stjórn geimstöðvarinnar í hendur nýrrar áhafnar sem nú hefur komið sér fyrir þar.

Kelly vakti athygli fyrir myndir sem hann birti á Twitter á meðan á ferðalaginu stóð, en hann birti nýja mynd daglega. Allt í allt birti Kelly þúsund myndir utan úr geimnum, meðal annars af sólsetri og sólarupprás, Norðurljósunum og jafnvel veðrafyrirbrigðum.

 

 

Kelly er sá Bandaríkjamaður sem lengst hefur dvalið í geimnum en nokkrir Rússar eiga þó lengri geimferðir að baki en hann. Búist er við að Souyz-geimfar þremenninganna lendi í Kasakstan um hálffimmleytið í nótt.