Bílbelti í rannsókn eftir bílveltu ferðamanna

11.02.2016 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Hafsteinsson  -  RÚV
Bíll valt innan við Kambsnes í sunnanverðum Stöðvarfirði í fyrradag. Tilkynnt var um bilað bílbelti í bifreiðinni og er málið í rannsókn. Ung stúlka var send til aðhlynningar á sjúkrahús. Um fjóra unga ferðamenn af asískum uppruna var að ræða og hafði ökumaður tekið bílpróf síðastliðið sumar í Bretlandi. Bifreiðin var bílaleigubíll og vakna að sögn lögreglu upp spurningar um það hvaða kröfur eigi að gera til aðila sem leigja bifreiðar til aksturs á Íslandi að vetri til.

Stúlkurnar fjórar sem um ræðir voru fluttar á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til aðhlynningar. Ein þeirra hafði slasast vegna þess að hún var ekki í bílbelti, eins og áður sagði. Uppgefin ástæða þess var sú að bílbeltið hefði verið bilað og er málið í rannsókn. Bifreiðin var óökufær eftir atvikið og flugu stúlkurnar aftur til Reykjavíkur frá Egilsstöðum.

 

Mikið um útafakstur ferðamanna

Að sögn lögreglunnar á Höfn hafa verið margar tilkynningar um ekið hafi verið út af eða ökumenn fest bíla sína í morgun og fram eftir degi. Þar hafa erlendir ferðamenn í flestum tilvikum átt í hlut. Þjónustuaðilar á svæðinu eru sendir til aðstoðar en útköll vegna alvarlegri óhappa hafa verið fá.

Varað við hreindýrum

Á þessum árstíma er mikið um hreindýr á láglendi og hafa vegfarendur samkvæmt frétt Vísis um málið, orðið varir við dauð dýr á svæðinu á milli Hafnar og Djúpavogs. Grétar Már Þorkelsson lögreglumaður á Höfn staðfestir að um nokkur dýr hafi verið að ræða en segir talsvert minna um tilkynnta árekstra við dýr en í meðalári. Undanfarna viku hafi þrjú dýr fundist dauð. 

Vegfarendur á svæðinu frá Höfn og austur um land eru varaðir við ferðum hreindýra, sér í lagi í kringum Lón, á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og á veginum um Fagradal. 

 

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV