Bíða þess að vatn í gígnum klárist

23.05.2011 - 10:00
Mynd með færslu
Öskufall er mikið á svæðinu frá Vík í Mýrdal og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Nokkurra metra skyggni er á Klaustri og þar fyrir austan. Hvast er við Lómagnúp og skyggni við Skaftafell hefur versnað hratt.

Gosið í Grímsvötnum virðist stöðugt og ekki virðist hafa dregið úr því. Ösku úr eldgosinu í Grímsvötnum verður vart víða um land. Allt frá Austurlandi til Suðurnesja, og suður fyrir Reykjanessgrunn, þó ekki á Norðvesturlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi.


Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu íslands, segir að það sé vatnið í gígnum sem valdi þessari miklu öskumyndun.  Nú bíði menn þess að vatnið klárist því að þá breytist öskugosið í hraungos með miklu minni öskuframleiðslu.