Bensínhækkun og gengislækkun í Venesúela

18.02.2016 - 01:48
epa05167260 Vehicles queue to stock up on petrol at a Venezuela Oil gas station in Caracas, Venezuela, 17 February 2016. Venezuelan President Nicolas Maduro announced a 6,158 per cent increase in the 95 octane gas price and a 1,282 increase in the 91
Raðir mynduðust við bensínstöðvar í Venesúela í dag.  Mynd: EPA  -  EFE
Bensínverð verður hækkað og gengið lækkað í Venesúela á næstunni að sögn Nicolas Maduro, forseta landsins. Hann segir þetta nauðsynlegar aðgerðir til þess að létta á efnahagslegum þrengingum í landinu.

Lítraverðið á bensíni er nú jafnvirði rúmrar einnar íslenskrar krónu en fer upp í um 121 krónu eftir hækkunina. Verðhækkunin gæti orsakað mótmæli í landinu en sívaxandi verðbólga gerir almennum borgurum lífið leitt auk þess sem skortur er á mat og öðrum nauðsynjavörum í landinu. Maduro sagði í sjónvarpsávarpi í kvöld að aðgerðirnar væru nauðsynlegar og hann taki fulla ábyrgð á þeim.

Venesúela hefur yfir að ráða mestu olíubirgðum allra ríkja í heiminum. Lækkandi olíuverð síðasta hálft annað árið hefur haft mikil neikvæð áhrif á efnahag ríkisins. Svipuð hækkun á bensínverði árið 1989 olli mannskæðum óeirðum.

Maduro boðaði einnig breytingar á bólivarnum, gjaldmiðli landsins. Gengi hans verður fellt og einfaldað. Í stað þriggja flokka verða aðeins tveir flokkar. Frá og með morgundeginum verður eitt opinbert, verndað gengi fyrir innflutning á mat og lyfjum og annað fljótandi gengi fyrir önnur viðskipti. Bólivarinn mun lækka um 37 prósent í viðskiptum með mat og lyf, úr 6,3 bólivörum á Bandaríkjadal í tíu bólivara á dal. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV