Barnalíkkista með sex beinagrindum

28.02.2016 - 17:40
Víkurkirkjugarður grafinn upp á bílastæðinu við landsímahúsið
 Mynd: ruv
Höfuðkúpa grafin upp við fornleifauppgröft á bílastæðinu við Landsímahúsið
Höfuðkúpa þessi fannst við fornleifauppgröft á bílastæðinu við Landsímahúsið.  Mynd: ruv
Sex beinagrindur voru í lítilli barnalíkkistu sem var í gröf undir bílastæðinu við Landsímahúsið. Þar er verið að grafa upp fornminjar vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar sem þar á að rísa.

Þeir sem gengið hafa yfir eða lagt á bílastæðinu við Landsímahúsið í gegnum tíðina hafa líklega ekki hugsað út í það að undir því er kirkjugarður þar sem Reykvíkingar fyrri alda hvíla sín bein. 

Garðurinn hét Víkurkirkjugarður og  var byrjað að grafa hann upp 1. febrúar. Mjög óvenjulegt er að fornleifauppgröftur fari fram um þetta leyti árs og væri ekki hægt ef ekki hefði verið byggt yfir svæðið og er húsið upphitað. 

Talið er að Víkurkirkjugarður hafi verið stofnaður í lok elleftu aldar og verið aflagður 1838 vegna plássleysis.  Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur sér um uppgröftinn. 

„Þannig að hér liggja í rauninni átta til níu hundruð ár af reykvískum kynslóðum á þessu svæði.“

Vala segir að svæðið sé mjög raskað og skemmt.

„Grafirnar eru þannig að það er búið að klippa þær í sundur eða forfara gröfum eina yfir í aðra, svo erum við með grafir þar sem eru margir einstaklingar í einni gröf, þar sem það er verið að færa hina eldri í yngri grafir og sameina og búa til meira pláss.“

Barnalíkkista var nýlega grafin upp sem var full af beinagrindum og ljóst að um var að ræða fleiri en einn einstakling. Á fyrstu myndunum sem Vala tók sjást þrjár hauskúpur.  

„Þetta voru samtals sjö einstaklingar, alla vega sex eða sjö, sem lágu hér saman í þessari kistu.“

Allar grafirnar eru ómerktar því það sem var á yfirborðinu er löngu farið. Gengið er frá beinunum í kassa og verður reynt að flokka þau og greina.  
Stefnt er að því að ljúka uppgreftri fyrsta júní.

Vala segir að það hafi komið á óvart hvað búið var að færa grafirnar mikið til og hvað raskið var mikið.   

„Ég hefði búist við minna raski og kannski meiri upplýsingum um rask frá síðari hluta 20 aldar til dæmis.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV