Bandaríski ferðamaðurinn í Silfru drukknaði

17.02.2017 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríski ferðamaðurinn sem lést við köfun í Silfru um síðustu helgi drukknaði. Þetta sýnir bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þorgrímur Óli Sigurðsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að enginn merki um veikindi hafi komið fram og er dauðsfallið því rannsakað sem slys.

Þorgrímur Óli segir að nú sé verið að kanna hvort maðurinn hafi misst munnstykkið eða fengið vatn í pípuna. Maðurinn hafi verið meðvitundarlaus þegar hann var dreginn upp á bakkann.

Þetta er því fjórða banaslysið í Silfru frá árinu 2010 en til viðbótar hafa orðið þar sex alvarleg slys. Í fyrra fóru tæplega 50 þúsund í Silfru, þar köfuðu um tíu þúsund og um 40 þúsund snorkluðu. Einkafyrirtæki bjóða upp á köfun í Silfru en þúsund krónur af gjaldinu, sem þau innheimta, rennur til þjóðgarðsins.

Bandarískur ferðamaður lýsti upplifun sinni af slysinu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist hafa fengið litlar upplýsingar um hvað hefði verið að gerast. Hann sagði í samtali við breska blaðið Daily Mail að vegna fjölda hópa þennan dag hefði fólk neyðst til að bíða í kafarabúningum á trébekkjum í drykklanga stund.

Einar Ásgeir Sæmundsen, fræðslustjóri þjóðgarðsins, sagði í samtali við fréttastofu á mánudag að fólk í þröngum búningum hefði fallið í yfirlið á meðan það biði eftir að röðin kæmi að þeim.  Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, sagði í útvarpsviðtali að margir færu í gjánna án þess að vera syndir.