Bandaríkjaher snúi aftur til Íslands

09.02.2016 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríkjaher ætlar að snúa aftur og hafa tímabundna aðstöðu á Íslandi, samkvæmt fréttatilkynningu frá hernum. Markmiðið sé að fylgjast með rússneskum kafbátum.

Vefrit hersins, Stars and Stripes, greinir frá þessu. Til að byrja með verði herinn aðeins með tímabundna aðstöðu hér, en sjóherinn gæti síðar meir farið fram á aðstöðu til langframa.

Herinn hefur farið fram á fjármagn á næstu fjárlögum Bandaríkjanna til að færa í stand gömul flugskýli hersins á Keflavíkurflugvelli, sem munu hýsa P-8 Poseidon vélar hersins. 

RÚV greindi frá því í fyrra að bandarísk stjórnvöld hefðu viðrað þá skoðun við íslensk yfirvöld að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir Bandaríkjamenn að auka viðveru bandarísks liðsafla hér á landi.