Bandaríkin gefa út skýrslu um drónaárásir

08.03.2016 - 05:24
epa04158498 A graffiti depicts a US drone as a protest against US drone operations, in Sana?a, Yemen, 07 April 2014. Reports state Yemen has issued a temporary ban on US military drone strikes in the country following a drone strike that hit a wedding
 Mynd: EPA
Opinber skýrsla um verkefni bandarískra herdróna verður gefin út af embætti forseta Bandaríkjanna á næstu vikum. Þetta staðfesti helsti ráðgjafi forsetans í þjóðaröryggismálum í gær.

Lisa Monaco, þjóðaröryggisráðgjafi Barack Obama, segir stjórnvöld ætla að gefa út skýrslu þar sem farið verður yfir allar loftárásir dróna á skotmörk víða um heim, utan stríðsvæða. Í skýrslunni verður bæði greint frá mannfalli úr röðum vígamanna og almennra borgara að sögn AFP fréttastofunnar.

Notkun Bandaríkjanna á þessum mannlausu, fjarstýrðu drápsflaugum hefur verið gagnrýnd. Helsta gagnrýnin liggur í því að almennir borgarar verði oft fórnarlömb árása í stað vígamanna. Obama lét undan árið 2013 og hét því að auka gagnsæi aðgerða dróna. Monaco segir skýrsluna koma út á næstu vikum og verður gert grein fyrir árásum dróna allt aftur til ársins 2009. Slík skýrsla eigi svo að koma út árlega.

Mannréttindahópar segja skýrsluna kærkomna en að stjórnvöld verði að ganga lengra. Jameel Jaffer, stjórnandi samtakanna American Civil Liberties Union, vill að stjórnvöld gefi einnig út gögn sem segja hver gaf skipun fyrir árásunum, gera grein fyrir hverri árás og rannsaka þær árásir þar sem almennir borgarar falla.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV