Banana og eggjum kastað í lögregluþjóna

04.04.2016 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mótmælin við Austurvöll síðdegis fóru að mestu vel fram að sögn lögreglu. Engar rörasprengjur voru sprengdar en trúlega bara kínverjar að sögn yfirlögregluþjóns. Banana og eggjum var kastað í lögregluþjóna. Talið er að tíu til tólf þúsund manns hafi verið á Austurvelli í kvöld en mögulega í kringum tuttugu þúsund manns runnið í gegn þá þrjá klukkutíma sem mótmælendur voru á Austurvelli.

Háværar sprengingar heyrðust á Austurvelli á sjöunda tímanum í kvöld. Jafnvel var talið að um rörasprengjur væri að ræða en svo reyndist ekki vera. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir að lögreglumenn hafi náð tali af manni sem var með einhvers konar sprengjur en það hafi ekki verið rörasprengjur. „Okkur var ekki tilkynnt um að neinn hafi slasast en það voru hörku hvellir af þessu en enginn slasaðist og það er fyrir öllu,“ segir Ásgeir.

Hann segir að mótmælin hafi verið mjög fjölmenn en allt gengið framar vonum. „Við viljum koma því á að framfæri að fólk, að stærstum hluta, fór eftir óskum okkar að láta reiði sína ekki bitna á okkur. Það voru tveir lögreglumenn sem meiddust eitthvað smávægilega, annar fékk banana í höfuðið og hinn egg en annars fór þetta mjög vel fram.“

Ásgeir segir að það hafi verið ótrúlega mikið af fólki í miðbænum í dag. „Við vitum sirka hvað kemst á Austurvöllinn, hann var alveg stappfullur og fullt af fólki frá Skólabrú á Austurstræti og alveg að Aðalstræti.“

Uppfært kl: 21:45. Hreinsunarstarfi er nánast lokið við Alþingishúsið. Þar er Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður sem ætlar að ræða við Pál Marís Pálsson, formann sambands ungra framsóknarmanna, í tíufréttum á eftir. 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV