Ban Ki-moon gagnrýnir Dani

29.01.2016 - 03:44
epa05090037 United Nations Secretary-General Ban Ki-moon makes a statement about a nuclear test conducted by North Korea at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 06 January 2016.  The United Nations Security Council is holding
Ban Ki-moon er allt annað en ánægður með nýju flóttamannalöggjöfina í Danmörku.  Mynd: EPA
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur fylgt fordæmi forvera síns, Kofi Annans, og gagnrýnt nýja flóttamannalöggjöf Dana. Talsmaður Bans, Stephane Djuarric, segir í tölvupósti til danska blaðsins Politiken, að framkvæmdastjórinn hafi tekið eftir að danska þingið hefði samþykkt lög, sem heimili stjórnvöldum að gera persónuleg verðmæti hælisleitenda upptæk.

Þetta og ýmislegt fleira sem nú er verið að leiða í lög og reglur í ýmsum Evrópuríkjum, veki framkvæmdastjóranum áhyggjur, þar sem þetta gangi gegn mannhelgi og mannréttindum hælisleitenda, segir Djuarric.

Ennfremur segir að Ban Ki-moon virði að sjálfsögðu óskoraðan rétt danska þingsins til lagasetningar í eigin landi, og fagni því örlæti sem evrópsk stjórnvöld og almenningur hafi sýnt flóttamönnum og förufólki. Um leið hafi hann hins vegar áhyggjur af því, að í sumum löndum álfunnar sé þrengt æ meira að innflytjendum og flóttafólki.

Neikvæð skilaboð

Svona stefnumótun og svona aðgerðir, segir í tölvupóstinum, „senda afar neikvæð skilaboð um skyldur aðildarríkja Evrópusambandsins með tilliti til þjóðaréttar og Evrópulöggjafarinnar. Enn fremur hafa tilraunir ríkja til að vísa flóttafólki annað ekki einungis lagt ósanngjarnar byrðar á aðra, heldur einnig torveldað alla samvinnu í tengslum við hinn gríðarlega straum flóttamanna og förufólks, auk þess sem þær samræmast illa hugmyndinni um sameiginlega ábyrgð.“

Afdráttarlaus og óvenjuleg gagnrýni

Hans Mouritzen, fræðimaður hjá Dönsku rannsóknarstofnuninni á sviði alþjóðamála, segir afar óvenjulegt að svo skýr og afdráttarlaus gagnrýni á dönsk stjórnvöld berist frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Minnist hann þess ekki að það hafi gerst síðan í Íraksstríðinu 2003, og segir tilskrifin til marks um, hve alvarlegum augum þróunin í Danmörku og Evrópu sé litin á æðstu stöðum.