Baldur Guðlaugsson metur hæfni umsækjenda

11.02.2016 - 15:15
Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.
 Mynd: RÚV
Baldur Guðlaugsson, lögfræðingur, hefur verið skipaður formaður hæfnisnefndar sem metur umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétta 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Hæfnisnefndin er skipuð af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Kjarninn greinir frá. Baldur var lengi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Þar starfaði hann til að mynda á árunum fyrir hrun og skömmu fyrir fall bankanna seldi hann bréf sem hann átti í Landsbankanum fyrir um 192 milljónir króna. Hann var færður til í starfi þegar sérsakur saksóknari hóf rannsókn á innherjasvikum hans og starfaði í menntamálaráðuneytinu fram í október 2009.

Baldur var sakfelldur í héraðsdómi 2011 og hlaut eins og fyrr segir tveggja ára fangelsisdóm. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti tæpu ári síðar.

Starfið sem hæfnisnefndin, sem Baldur leiðir, á að meta er starf skrifstofustjóra viðskipta-, nýsköpunar- og ferðaþjónustu. 38 sóttu um starfið, að því er fram kemur á Kjarnanum.  

Baldur lauk afplánun sinni 2013 og hefur starfað sem ráðgjafi hjá Lex lögmannsstofu frá haustinu 2012.

Athugasemd ritstjóra: Þessari frétt hefur verið breytt. Í upphaflegu útgáfunni var haft eftir frétt Kjarnans og sagt að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefði skipað hæfnisnefndina. Hið rétta er að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði nefndina að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu. Það leiðréttist hér með.