Bafta: The Revenant með 5 verðlaun

14.02.2016 - 23:03
Erlent · Evrópa · Kvikmyndir · Menning
epa05161435 Alejandro Gonzalez Inarritu (L) and Leonardo DiCaprio (R) pose in the press room after winning the Best Director and Best Actor respectively for 'The Revenant' during the 69th annual British Academy Film Awards at the Royal Opera
 Mynd: EPA
epa05161389 Kate Winslet poses in the press room after winning for the Best Supporting Actress award for 'Steve Jobs' during the 69th annual British Academy Film Awards at the Royal Opera House in London, Britain, 14 February 2016. The ceremony
 Mynd: EPA
epa05161190 John Boyega poses in the press room after winning the EE Rising Star award during the 69th annual British Academy Film Awards at the Royal Opera House in London, Britain, 14 February 2016. The ceremony is hosted by the British Academy of Film
 Mynd: EPA
Kvikmyndin The Revenant, sem snara mætti sem Afturgangan, gerði það gott á bresku kvikmyndaverðlaunahátíðinni, BAFTA, í Lundúnum í kvöld. Hún fékk fimm verðlaun, þar á meðal sem besta mynd ársins. Leonardo di Caprio fékk verðlaun sem besti leikari ársins í aðalhlutverki, Alejandro G Inarritu var kjörinn leikstjóri ársins, Emmanuel Lubezki fékk verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna, auk þess sem myndin var verðlaunuð fyrir besta hljóðið.

Þetta er þriðja árið í röð sem Lubezki fær Bafta-verðlaun fyrir kvikmyndatöku, en vinna hans við Birdman og Gravity tryggðu honum bæði Bafta og Óskar.

Brie Larson var kjörin leikkona ársins fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni Room, eða Prísund. 

Kate Winslet var verðlaunuð fyrir sem besta leikkona í aukahlutverki  fyrir túlkun sína á Joanna Hoffman, helstu stoð og styttu Steve Jobs í samnefndri kvikmynd.  Landi hennar Mark Rylance var valinn besti karlleikarinn í aukahlutverki, en hann lék njósnara í kvikmyndinni Bridge of Spies, Njósnarabrúnni.

Sérstök verðlaun voru að vanda veitt fyrir framúrskarandi breska kvikmynd. Þau hreppti að þessu sinni búningadramað Brooklyn, sem snýst um unga írska konu sem flyst til New York um miðja 20. öld. 

Amy, heimildarkvikmynd um stutta ævi Amy Winehouse, var valin besta heimildarmyndin.

John Boyega, sem slegið hefur í gegn í hlutverki Finns í nýjustu Stjörnustríðsmyndinni, var kosinn Rísandi stjarna ársins, en það eru einu verðlaunin sem ráðast af vilja almennings, sem greiðir atkvæði þar um á Netinu. 

Jóhann Jóhannsson, sem tilnefndur var fyrir tónlistina í myndinni Sicario, mátti horfa á eftir verðlaununum í greipar höfuðsnillingsins Ennio Morricone, sem samdi tónlistina í The Hateful Eight, eða Andstyggðunum átta.  

Myndin The Revenant, sem gerist á fyrri hluta nítjándu aldar, snýst um veiðimanninn og landnemann Hugh Glass, sem skilinn er eftir af félögum sínum, nær dauða en lífi eftir árás bjarnar, og er þar að auki hundeltur af indjánum. Að auki þurfti hann að horfa upp á það, bjargarlaus, þegar annar félaganna myrti son hans, áður en þeir husla hann líka. En það er seigt í Glass, sem rís úr sinni grunnu gröf og hyggur á hefndir.

Prísund, The Room, byggir á samnefndri skáldsögu Emmu Donoghue. Þar segir af Joy Newsome, sem hefur verið innilokuð um sjö ára skeið og nauðgað ítrekað af kvalara sínum. Með henni í prísundinni er einnig fimm ára sonur hennar og mannsins sem lokaði hana inni. Sá hefur aldrei upplifað heiminn utan þess litla rýmis sem þeim mæðginum er haldið föngnum í, fyrr en móður hans tekst að lokum að losa þau úr klóm mannræningjans með klækjum.  

Verðlaunahafar

Besta mynd The Revenant

Leikstjóri Alejandro G. Iñárritu (The Revenant)

Framúrskarandi bresk kvikmynd - Brooklyn

Frumhandrit - Spotlight

Handrit eftir áður útgefnu verki The Big Short

Leikkona í aðalhlutverki Brie Larson (Room)

Leikari í aðalhlutverki Leonardo diCaprio (The Revenant)

Leikkona í aukahlutverki Kate Winslet (Steve Jobs)

Leikari í aukahlutverki Mark Rylance (Bridge of Spies)

Rísandi stjarna (áhorfendaverðlaun) John Boyega (Star Wars)

Besta frumraun leikstjóra  Theeb

Besta heimildarmynd  Amy 

Besta kvikmyndin á öðru máli en ensku  Wild Tales

Besta kvikmyndataka  Emmanuel Lubezki (The Revenant)

Besta klippivinna  Margaret Sixel (Mad Max, Fury Road)

Tónlist  Ennio Morricone (The Hateful Eight)

Hljóð  The Revenant

Besta teikni-/hreyfimynd  Inside Out

Besta breska stuttmyndin  Operator

Besta breska, stutta teikni-/hreyfimyndin  Edmond

Búningahönnun  Jenny Beavan (Mad Max, Fury Road)

Förðun  Lesley Vanderwalt og Damian Martin (Mad Max, Fury Road)

Brellur  Star Wars: The Force Awakens

Meira um verðlaunin og hátíðina má finna á vefsíðu BAFTA.   

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV