Bæta nemendum upp verkfallið

26.12.2014 - 12:24
Mynd með færslu
Reykjavíkurborg ætlar að greiða laun tónlistarkennara á meðan þeir voru í verkfalli, gegn því að kennarar bæti nemendum upp kennslu sem felld var niður í verkfallinu.

Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, segir hugmyndina að koma í veg fyrir að skólarnir þurfi að endurgreiða skólagjöld.

„Þeir hafa boðist til þess að bæta nemendum upp það kennslutap sem þeir urðu fyrir að hluta eða öllu leyti,“ segir Kjartan. 

Hvernig yrði það framkvæmt?

„Það sem felst í því er að nemendum verði kenndar upp, ef svo má segja, þessar fimm vikur sem kennararnir voru í verkfalli. Og þeir fá greitt fyrir það.“

Ef þetta verður gert svona, hvenær verður byrjað að vinna upp þennan tapaða tíma?

„Það er byrjað á því nú þegar í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem ég er skólastjóri. Og sjálfsagt víðar. Það þarf náttúrulega að gera ákveðið plan um hvernig eigi að gera þetta því þetta er ekki eins einfalt í öllum tilfellum, til dæmis hjá kennurum sem kenna mjög mikið - heila stöðu eða kannski meira. Þeir eiga kannski dálítið erfitt með að koma þessu fyrir. En það er meiningin að dreifa þessu fram til vors.“

Þýðir þetta að skólar þurfa ekki að endurgreiða skólagjöldin?

„Þetta er sjálfsagt hugsað til þess. En það liggja fyrir frá því í síðasta verkfalli að minnsta kosti tvö lögfræðiálit sem segja að skólar þurfi strangt til tekið ekki að endurgreiða skólagjöldin,“ segir Kjartan.