Austurríkismenn þrýsta á Grikki

25.01.2016 - 12:20
epa05124257 Austria's Interior Minister Johanna Mikl-Leitner speaks to reporters upon arrival prior to a informal meeting of the EU-ministers of Interior and Justice at the Scheepsvaartmuseum (Maritime Museum) in Amsterdam, The Netherlands, 25
Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis.  Mynd: EPA  -  ANP
Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, segir að Grikkir verði að leggja meira af mörkum til að verja ytri landamæri Evrópusambandsins. Hún gaf í skyn í morgun að Grikkjum kynni að verða vísað tímabundið úr Schengen-samstarfinu.

Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins komu saman til fundar í Amsterdam í Hollandi í morgun til þess að ræða flóttamannavandann. Austurríki og fleiri ríki Evrópusambandsins hafa að undanförnu hert eftirlit við landamæri sín til að takmarka straum flóttamanna og hælisleitanda um lönd sín og norður á bóginn. 

Mikl-Leitner sagði við fréttamenn fyrir fundinn að fullyrðingar um að Grikkir gætu ekki varið landamæri sín við Tyrkland ættu ekki við rök að styðjast. Gríski flotinn hefði fulla getu til þess, enda einn sá stærsti í Evrópu. Tækist ekki að verja ytri landamæri Evrópusambandsins á þessum slóðum, yrði að færa þau nær Mið-Evrópu.

Að sögn fréttastofunnar AFP hefur Mikl-Leitner lagt til að að Grikkjum verði tímabundið vísað úr Schengen-samstarfinu til að þrýsta á stjórnvöld í Aþenu til að gera meira til að draga úr straumi flóttamanna og hælisleitenda til Evrópu. 

Dimitris Avramopoulos, fyrrverandi utanríkisráðherra Grikklands, sem fer með þessi mál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í morgun að engin slík tillaga hefði verið lögð fram en augljóst væri að ríki sem væri við ytri landamærin yrðu að gera meira, en jafnframt fá meiri aðstoð til þess. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV