Aukin umferð um helstu fjallvegi hringvegarins

12.01.2016 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Vegagerðin
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Vegagerðin
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Vegagerðin
Stöðug aukning er á umferð yfir helstu fjallvegi á hringveginum og sumstaðar hefur umferðin ekki verið meiri frá því um síðustu aldamót. Langmesta umferðin er yfir Hellisheiði, en Víkurskarð er þar í öðru sæti.

Þegar umferðartölur frá Vegagerðinni eru skoðaðar kemur í ljós stöðug aukning á öllum fjallvegum á hringveginum sem liggja yfir 300 metra hæð, og eru mokaðir reglulega allan veturinn. Frá 2012 hefur umferð aukist á öllum þessum fjallvegum. Umferð yfir Víkurskarð, Mývatnsheiði og Möðrudalsöræfi hefur ekki verið meiri frá aldamótum.

Langmest umferð á Hellisheiði

Af þessum fjallvegum er Hellisheiði langmest ekin, en meðalumferð þar á sólarhring var 6803 bílar á síðasta ári. Þetta er aukning um 389 bíla á sólarhring miðað við árið 2014 og nærri 700 bílum meiri sólarhringsumferð en 2013.

Aldrei fleiri ekið yfir Víkurskarð

Næst mestur umferðarþungi er á Víkurskarði, en aldrei hafa fleiri ökutæki farið þar um en á nýliðnu ári. Meðalumferðin þar á sólarhring var 1351 bíll árið 2015, sem er 122 bílum meira á sólarhring en árið á undan og 220 bílum meiri sólarhringsumferð en 2013.

Allstaðar aukin umferð

Þar á eftir kemur Holtavörðuheiði, en þar fóru 1215 bílar yfir á sólarhring að meðaltali árið 2015. Umferðarþunginn á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði er nánast sá sami. Sólarhringsumferð á Vatnsskarði var 937 bílar á síðasta ári á móti 938 bílum á Öxnadalsheiði. Þá fóru 650 bílar um Mývatnsheiði að meðaltali á sólarhring á síðasta ári og 372 bílar óku að meðaltali yfir Möðrudalsöræfi hvern sólarhring árið 2015.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV