Auglýst eftir stefnumálum

03.06.2010 - 17:32
Mynd með færslu
Besti flokkurinn og Samfylkingin fara nýja leið í stefnumótunarvinnu í myndun meirihluta í Reykjavík. Borgarbúar eru beðnir um að koma stefnumálum á framfæri á netinu.

Höfuðborgarsvæðið ein heild, Leikja og ævintýrahús í Hljómskálagarðinn og fleiri hjólreiðastíga í borginni - og þá ekki bara í 101 og 107 . Þetta eru nokkrar þeirra hugmynda sem borgarbúar hafa sett fram á vefsíðunni betri reykjavík.is. Þar er auglýst eftir hugmyndum sem eigi erindi við meirihlutaviðræður Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Tilgangur síðunnar er sagður vera að örva lýðræðislega umræðu. Hugmyndirnar fá misjafnan hljómgrunn á síðunni, en þar þurfa allir að tjá sig undir nafni. Á vefsíðunni eru hugmyndir almennings flokkaðar og lenda flestar í flokknum Betri Reykjavík. Þar hafa verið lagðar fram rúmlega 400 hugmyndir.

Mestan stuðning hefur sú sparnaðarhugmynd að hætt verði að borga biðlaun í borgarstjórn auk þess sem fjölmargir hafa lýst stuðningi við hugmynd um að endurskoða laun borgarfulltrúa. Þá nýtur mikillar hylli hugmynd um vefsíðu þar sem borgarbúar geti beðið um viðgerðir í sínu hverfi. Efst á lista yfir umdeildustu hugmyndirnar var síðdegis í dag hugmyndin um að tekjutengja leikskólagjöld.