Auglýsing segir reykingar hættulegri en Obama

18.02.2016 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: Dmitry Gudkov  -  Facebook
Ný auglýsingaherferð gegn reykingum í Rússlandi notast við mynd af Barack Obama Bandaríkjaforseta með sígarettu og í meðfylgjandi texta segir að sígarettur drepi fleiri en Obama, sem þó sé fjöldamorðingi. Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Dmitry Gudkov birti á Facebook síðu sinni mynd af auglýsingaskiltinu við strætisvagnabiðstöð í Moskvu. Hann segir herferðina hneyksli.

Ekki er ljóst hver ber ábyrgð á auglýsingunni og borgaryfirvöld í Moskvu hafa ekki tjáð sig um málið. Margir telja þó að með skiltinu sé verið að vísa til annarar auglýsingaherferðar í rússnesku sjónvarpi. Þær auglýsingar sýna tugi rússneskra háskólanema láta sig falla í jörðina til að mótmæla því að Obama myrði 875 manns á viku. Ekki er fyllilega ljóst hvaðan sú tölfræði kemur.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV