Áttu fund með réttarmeinafræðingi í máli Birnu

03.08.2017 - 17:00
Héraðsdómur Reykjavíkur 2. mars 2017
 Mynd: RÚV
Kolbrún Benediktsdóttir, varanhéraðssaksóknari, og Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Möller Olsen sem er ákærður fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, hittu í dag Urs Oliver Wiesbrock, þýskan réttarmeinafræðing og dómkvaddan matsmann í málinu, á svokölluðum matsfundi. Kolbrún vildi ekki segja hvað hvað hefði komið fram á fundinum, hann hafi bara verið einn liður í matinu - það verði nú skrifað og síðan skilað.

Kolbrún segir þó  að matsgerðin verði tilbúin fyrir 21. ágúst þegar ráðgert er að aðalmeðferð hefjist. Páll Rúnar, verjandi Olsen, óskaði eftir því að dómkvaddur yrði réttarmeinafræðingur til að svara fimm spurningum. Páll vildi heldu ekki  tjá sig um fundinn.

Til stóð að aðalmeðferðin hæfist um miðjan síðasta mánuð en vegna tafa á matsgerðinni var skýrslutökum yfir Olsen frestað.  

Hins vegar var ákveðið að taka skýrslur af sjö skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq þar sem skipið var þá að koma til hafnar í Hafnarfirði. Þar lýsti fyrsti stýrimaðurinn því meðal annars hvernig Olsen hefði orðið fölur og grár eftir að hafa fengið skilaboð á Facebook frá íslenskum blaðamanni þar sem hann var spurður út í horfna stelpu og rauðan bíl.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu daginn eftir skýrslutökurnar að skilaboðin hefðu getað spillt rannsókninni en ekki hefur komið fram hver sendi skilaboðin. DV greindi svo frá því að blaðamaðurinn muni gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni.  

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV