Átakanlegt að hlusta á þvættinginn í ráðherra

15.02.2016 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir segir átakanlegt að hlusta á þvættinginn úr munni forsætisráðherra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gagnrýndi hugmyndir Pírata um borgaralaun og sagði erfitt að átta sig á raunverulegri stefnu Pírata.

Birgitta spurði Sigmund Davíð um kosningaloforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Umræðanvék þó fljótlega að hugmyndum Pírata um borgaralaun. 

Birgitta segir að Píratar hafi ekki mótað stefnu um borgaralaun heldur hafi varaþingmaður flokksins lagt fram þingsályktunartillögu þar sem óskað er eftir því að skipaður verði starfshópur til að kortleggja leiðir sem tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Engar tölur séu nefndar í tillögunni og því vildi Birgitta vita hvaðan Sigmundur fékk tölur um borgaralaun sem hann fjallaði um í ræðu á Viðskiptaþingi í síðustu viku. 

Þar sagði Sigmundur Davíð að borgaralaun myndu fela í sér útgjöld upp á um 100 milljarða á mánuði. Það væri álíka mikið og árlegur kostnaður við almannatryggingakerfið, lífeyrinn og örorkubæturnar. Árlegur kostnaður næmi því 1.200 milljörðum króna árlega. „Akkúrat þegar maður hélt að loksins væri komið eitthvað mál frá Pírötum þar sem þeir væru að skýra einhverja stefnu eða boða stefnu kemur á daginn að svo er ekki. Þetta er ekki stefna, þetta er bara til skoðunar. Það á bara að kanna hvort þetta geti hugsanlega verið sniðugt þannig að enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum,“ sagði Sigmundur Davíð í þingsal í dag. 

Birgitta sagði átakanlegt að hlusta á þvættinginn úr munni hæstvirts forsætisráðherra. Hún vitnaði í orð ritstjóra Kjarnans og sagði að ein helsta röksemdafærslan fyrir borgaralaunum væri að fyrirséð væri að aukin sjálfvirkni og tækniframfarir geti orsakað að allt að helmingur starfa hverfi. Þau störf sem séu í mestri hættu séu láglaunastörf. Þess vegna væru 20 hollensk sveitarfélög að kanna fýsileika einfaldleikakerfis borgaralauna. Stjórnvöld í Finnlandi væru að gera slíkt hið sama og í Sviss væri kosið um málið í júní í sumar. 

Sigmundur Davíð sagði sérkennilegt að heyra þingmann Pírata þurfa að lesa upp pistil á vefriti til að skýra hvað þeir væru að meina. Það sé rétt að bæði hægri og vinstri menn hafi talað fyrir hugmyndum um borgaralaun eða eitthvað svipað. Í báðum tilvikum sé það fólk á jaðrinum þar sem öfgahægrimenn og öfgavinstrimenn nái saman um útópískar hugmyndir sem séu algjörlega óraunhæfar.