Ástæðulaust að þræta fyrir bága stöðu

26.02.2016 - 18:27
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, segir ástæðulaust að þræta fyrir bága stöðu í málum barna og unglinga með geðheilbrigðisvandamál. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar segir meðal annars að það sé óviðunandi að börn geti þurft að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri þjónustu og þar er kallað eftir úrbótum. Ráðherra lofar úrbótum.

„Þetta eru mjög alvarlegar fullyrðingar og eru á margan hátt mjög sannar. Því miður er staðan þessi og það er algjörlega ástæðulaust að reyna að draga fjöður yfir það. Þetta er málaflokkur, sem er þess eðlis að við eigum að kappkosta að gera betur þar. Þetta er á margan hátt mjög sárt og erfitt að vinna þetta,“ segir Kristján Þór. 

Uppsafnaður og gamall vandi
Þetta er hins vegar ekki nýr vandi, heldur hefur hann verið til staðar í nokkur ár. Fyrir níu mánuðum skilaði landlæknir skýrslu um starfsemi Barna- og unglingageðdeildar. Þar kemur fram að núverandi stjórnskipulag BUGL hamli starfinu að mati stjórnenda og starfsfólks. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni á þetta kerfi - þar á meðal geðhjálp og umboðsmaður barna sem segir að verið sé að brjóta mannréttindi á börnum og unglingum, sem eigi rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.

Ný en ósamþykkt stefna
Á Alþingi liggur inni stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2020 sem Kristján Þór lagði fyrir þingið í nóvember. „Sú stefna er unnin á síðasta ári af fjölda fólks á grundvelli þingsályktunar sem Alþingi gerði. Þetta er sennilega í fyrsta skipti sem reynt hefur verið að vinna heildstæða stefnumörkum í þessum málum.“ Í stefnunni eru listuð upp 17 atriði, þau tímasett og skráð hver ber ábyrgðina. Kristján Þór segist þegar byrjaður að vinna eftir stefnunni, þó ósamþykkt sé. Þó sé ljóst að einhvern tíma taki að sjá viðsnúning í kerfinu með berum augum og minnkun á biðlistum.

Viðhorfsbreyting í geðheilbrigðismálum
Kristján Þór segir að á síðustu misserum hafi orðið viðhorfsbreyting gagnvart geðheilbrigðismálum. „Það er ekki sama tilhneigingin til þöggunar eins og var hér á árum áður. Það er gleðilegt, þó þetta sé að mörgu leyti erfið umræða sem okkur ber þó skylda til að taka.“ 

 

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi