Assange getur orðið frjáls á föstudag

03.02.2016 - 03:16
epa03772989 (FILE) A file photograph showing  Wikileaks founder Julian Assange giving a thumbs up prior to delivering a statement on the balcony inside the Ecuador Embassy where he has sought political asylum in London, Britain, 19 August 2012.  Media
Julian Assange í sendiráði Ekvadors.  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Á föstudag kveður óháður dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna upp úrskurð um hvort Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hafi verið ólöglega í varðhaldi síðasta fimm og hálfa árið. Hann gæti orðið laus allra mála um helgina.

Assange hefur verið í varðhaldi án ákæru í fimm og hálft ár. Í september 2014 sendi hann formlega kvörtun til vinnuhóps SÞ um óréttmætar fangelsanir. Vinnuhópurinn kom málinu áfram til óháðs dómstóls sem hefur hlustað á málflutning Assanges, auk Svía og Breta sem hafa viljað fá hann framseldan til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér ákærur vegna birtingar fjölda bandarískra leyniskjala á vef WikiLeaks.

Í fréttatilkynningu frá lögfræðingum Assanges segir að þegar dómstóllinn kveði fanga vera ólöglega í haldi sé þeim umsvifalaust sleppt úr haldi. Það myndi þýða að Assange yrði laus úr stofufangelsi sínu í sendiráði Ekvadors í Lundúnaborg, þar sem hann hefur dvalið í rúm þrjú ár. Þar fékk Assange pólitískt hæli síðla árs 2012.

Handtekinn ef hann yfirgefur sendiráðið

Hann vill komast til Ekvadors þar sem hann getur verið frjáls ferða sinna, en til þess þarf hann að fara út úr sendiráðinu. Fari hann þaðan á hann á hættu að verða handtekinn af breskum yfirvöldum og framseldur til Bandaríkjanna. Assange vill að Bretar virði rétt sinn til pólitísks hælis í Ekvador og hleypi honum því óáreittum þangað.

Sænsk yfirvöld eru lengi búin að vilja yfirheyra Assange vegna kynferðisbrota sem hann er grunaður um í Svíþjóð. Þau höfðu fengið samþykkt að ræða við hann í sendiráðinu en því var svo hafnað skömmu áður en yfirheyrslan átti að fara fram. Assange hefur alltaf neitað sök í málunum og óttast að Svíar framselji hann til Bandaríkjanna.

Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að varðhald Assanges sé ólögmætt verður hann að öllum líkindum frjáls ferða sinna og á mögulega rétt á bótum frá breska ríkinu. Áður hefur dómstóllinn veitt pólitískum föngum á borð við Aung San Suu Kyi, núverandi forseta Mjanmars, Mohamed Nasheed, fyrrum forseta Maldíva-eyja, og Jason Rezaian, blaðamanni Washington Post, lausn úr varðhaldi.