Asbest finnist enn á nokkrum leikskólum

01.02.2016 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Asbest er enn í innri klæðningum einhverra af elstu leikskóla Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í bókun sem áheyrnarfulltrúi Félags foreldra leikskólabarna lagði fram á fundi skóla-og frístundaráðs í liðinni viku.

Í bókuninni er leikskólinn Drafnarborg í Vesturbæ Reykjavíkur tekinn sem dæmi um einn af þessum leikskólum. Sveinn Sigurður Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, á barn á Drafnarborg og það var hann sem lagði bókunina fram á fundinum. „Þetta eru tveir eða þrír leikskólar sem eru enn með asbest. Það er mikilvægt að átta sig á því hvenær það er hættulegt og það er þegar það er borað eða sagað, því þá getur duft komist í lungun á fólki,“ segir Sveinn. „Við fengum góð viðbrögð á fundinum um að þetta yrði skoðað ofan í kjölinn. 

Sveinn segir að félagið hafi sent Umhverfissviði Reykjavíkurborgar fyrirspurn um eftirlit og umsjón með slíkum efnum fyrir nokkru síðan en enn ekki fengið svar.

„Það stóð til að bora í veggi leikskólans [Drafnarborgar] og setja upp niðurfellanleg borð til að að spara pláss. Ég veit ekki til þess að þessi borð séu komin upp. Starfsfólkið er mjög meðvitað um að það megi ekki negla í þetta og það er hæpið að það verði af hættulegri mengun við það, því asbest verður að verða að dufti,“ segir Sveinn. „Það er ekki hætta nema farið sé í framkvæmdir án eftirlits. Ef það yrði borað í vegg þá gæti ryk farið á gólfið og þyrlast upp. Þá er starfsfólk, börn og ræstingarfólk mögulega útsett fyrir menguninni.“

Vilja að leikföng leikskólanna verði könnuð

Í bókun Félags foreldra leikskólabarna er einnig lýst áhyggjum yfir gömlum leikföngum leikskólanna sem geti innihaldið efni sem geti haft áhrif á hormónabúskap og þroska barna, til dæmis þalöt, blý og benzen. Félagið óskar eftir því að könnun verði gerð á því hvort leikföng með ólöglegum eiturefnum séu mögulega til staðar í leikskólum borgarinnar. „Við viljum tryggja að það séu ekki leikföng seld til leikskóla sem eru ólögleg, með eiturefnum sem hafa verið bönnuð í innflutningi,“ segir Sveinn og nefndir sérstaklega mjúk plastleikföng sem teygist mikið. Þau kunni að innihalda þalöt. „Drafnarborg er fyrsti leikskólinn sem byggður var sem leikskóli í Reykjavík. Það gætu leynst þar gömul leikföng. Við vildum vekja upp umræðu um þetta.“ 

Félagið telur ófullnægjandi að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vísi fyrirspurn um leikföng leikskóla frá sér. Skýringin á frávísinuninni hafi verið sú að málið falli frekar undir neytendamál. 

Sveinn segir að góð viðbrögð hafi verið við bókuninni í ráðinu, þvert á flokka. „Það eru allir sammála um þessa hluti. Þetta er ekki pólitískt bitbein og það eru allir sammála um að fyrirbyggja að mistök eigi sér stað. Þegar kemur að öryggi barna eru allir sammála,“ segir Sveinn. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV