Aron í viðræðum við AGF

18.09.2012 - 19:20
Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson er með nýtt samningstilboð í höndunum frá AGF í Árósum. Frábær frammistaða hans með liðinu að undanförnu hefur vakið athygli liða víða að úr Evrópu.

Aron skoraði tvö mörk og lagði það þriðja upp í 3-2 sigri AGF á Midtjylland í gær. Hann hefur nú skorað 8 mörk í síðustu þremur leikjum og er markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar með 9 mörk í 9 leikjum.

Umboðsmaður Arons staðfesti við RÚV í dag að AGF hafi gert honum tilboð í gær og séu viðræður í gangi en núgildandi samningur Arons rennur út næsta sumar. Um er að ræða sama samning og danska félagið gerði við Aron og þegar hann kom frá Fjölni úr íslensku 1. deildinni árið 2010. Samkvæmt heimildum RÚV hafa félög frá Englandi, Frakklandi og Þýskalandi og AZ Alkmaar í Hollandi lýst yfir áhuga á Aroni.

Sterkasta deildin í Skandinavíu
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks, fyrrverandi leikmaður og aðstoðarþjálfari hjá AGF segir að danska úrvalsdeildin sé sterkasta deild í Skandinavíu. Það sé því mikið afrek að vera markahæsti leikmaður deildarinnar.

Sjá má viðtalið við Ólaf í heild sinni með því að smella á myndina að ofan.

Gæti leikið með bandaríska landsliðinu
Aron hefur leikið með 21 árs landsliði Íslands en ekki enn hlotið náð fyrir augum Lars Lagerbäck þjálfara A landsliðsins þrátt fyrir meiðsli framherja. Aron er fæddur í Bandaríkjunum og samkvæmt heimildum RÚV hefur Jürgen Klinsmann þjálfari bandaríska landsliðsins fylgst náið með Íslendingnum með það fyrir augum að fá hann til að skipta um ríkisfang.

Aron sagði í samtali við RÚV í dag að sem stendur komi ekki til greina að spila fyrir Bandaríkin.  Draumurinn hafi alltaf verið að spila fyrir Ísland en haldi hann áfram að standa sig vel með AGF án þess að fá tækifæri með íslenska landsliðinu muni hann að sjálfsögðu hugsa málið.