Argentína býður kröfuhöfum samning

06.02.2016 - 12:35
epa05019747 Argentine presidential candidate for Cambiemos party Mauricio Macri speaks during a meeting with foreign journalists in Buenos Aires, Argentina, 10 November 2015. Argentinians will go to the polls on 22 November 2015 for a presidential
Macri tekur við erfiðu búi þar sem efnahagur Argentínu er annars vegar.  Mynd: EPA  -  EFE
Ný ríkisstjórn mið- og hægriflokka í Argentínu hefur boðist til að greiða erlendum kröfuhöfum 75% af því sem bandarískur dómstóll hefur dæmt argentínska ríkið til að greiða. Fjárfestarnir - þar á meðal erlendir vogunarsjóðir - keyptu ríkisskuldabréf á niðursettu verði þegar efnahagshrun varð í Argentínu 2002.

Argentínska ríkið hafði áður samið um greiðslur við flesta kröfuhafa en nokkrir vogunarsjóðir vildu ekki samþykka þau kjör, fóru með málið fyrir dóm í Bandaríkjunum og höfðu sigur. Cristina Fernandez de Kirchner, fyrrverandi forseti, neitaði að semja við þá og kallaði þá hrægammasjóði. Aðgengi argentínska ríkisins að alþjóðlegum lánamörkuðum varð þá mjög takmarkað.

Þegar Mauricio Macri tók við forsetaembættinu af henni í desember hóf hann þegar samningaviðræður við sjóðina og hefur nú gert þeim tilboð.