Árásir á sjúkrahús og skóla í Sýrlandi

15.02.2016 - 15:44
epa05162332 A handout image provided by the Medecins Sans Frontieres (MSF) or Doctors Without Borders organization, showing destruction and rubble at an MSF-supported hospital in Ma'arat Al Numan, Idlib province, northern Syria, largely destroyed in
Rústir sjúkrahússins í Maarat al-Numan.  Mynd: EPA  -  MSF
Að minnsta kosti 22 létu lífið í árásum á tvö sjúkrahús og skóla í norðurhluta Sýrlands í morgun. Átta er saknað. Fimmtán létu lífið og allt að 40 særðust í árás á sjúkrahús og skóla í bænum Azaz í Aleppo-héraði, en þar í grennd hafa harðir bardagar geisað undanfarna daga.

Sveitir sýrlenskra Kúrda hafa sótt að bænum, sem er skammt frá tyrknesku landamærunum, en Tyrkir hafa gert stórskotaliðsárásir yfir landamærin til að hindra sókn þeirra. Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, lýsti því yfir í morgun að stjórnvöld í Ankara myndu aldrei leyfa Kúrdum að ná Azaz á sitt vald.

Ekki hefur fengist staðfest hverjir stóðu á bakvið árásinar á sjúkrahúsið og skólann í Azaz, en Davutoglu staðhæfði að Rússar hefðu verið að verki.

Í Idlib-héraði var fjórum sprengjum varpað á sjúkrahús í bænum Maarat al-Numan. Samtökin Læknar án landamæra, sem stutt hafa sjúkrahúsið í Maarat al-Numan, segja að minnst sjö hafi látið lífið í árásinni, átta væri saknað, en tugir hafi særst. Sjúkrahúsið hafi verið lagt í rúst. Þetta hafi verið gert viljandi. Um 40.000 íbúar á svæðinu hafi nú engan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Ekki hefur verið staðfest hverjir voru að verki, en Mego Terzian, forseti Lækna án landamæra, staðhæfði í dag að það hefðu verið hersveitir hliðhollar stjórnvöldum í Damaskus.