Andsvar við skaðlegri og einhliða umræðu

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Morgunútvarpið

Andsvar við skaðlegri og einhliða umræðu

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Morgunútvarpið
Mynd með færslu
20.03.2017 - 10:42.Atli Þór Ægisson.Kastljós, .Morgunútvarpið
„Ábyrgð gerenda liggur svo oft í láginni og er ekki dregin fram í dagsljósið – en hún er auðvitað aðalmálið. Og hér erum við að reyna að snúa þeirri þróun við og ögra ríkjandi ástandi,“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem hefur vakið heimsathygli fyrir TED-fyrirlestur og bókina Handan fyrirgefningar, sem hún skrifaði ásamt nauðgara sínum, Tom Stranger.

Fyrir tuttugu árum, þegar þau voru 16 og 18 ára kærustupar í menntaskóla, nauðgaði Tom Þórdísi eftir að hafa bjargað henni heim dauðadrukkinni af skólaballi. Níu árum síðar skrifaði hún Tom bréf, þau skrifuðust á í átta ár og hittust svo í Höfðaborg á nokkurs konar sáttafundi. Bókin er um þetta ferli.

Þau Þórdís og Tom verða í viðtali í Kastljósi í kvöld, en brot úr því var flutt í Morgunútvarpi Rásar 2 í dag og má heyra hér fyrir ofan.

Vilja undirstrika alvarleika kynferðisofbeldis

Þórdís og Tom voru mikið gagnrýnd á ráðstefnu í London í síðustu viku fyrir að hampa nauðgara en Þórdís er alls ekki sammála því. „Við búum í heimi þar sem kynferðisofbeldi er afskrifað og það er gert lítið úr því, og einn valdamesti maður heims kallaði það búningsklefatal um daginn. Ábyrgð gerenda liggur svo oft í láginni og er ekki dregin fram í dagsljósið – en hún er auðvitað aðalmálið. Og hér erum við að reyna að snúa þeirri þróun við og ögra ríkjandi ástandi,“ segir Þórdís.

„Hér er gerandi sem segir: ég ber ábyrgð, ég olli miklum skaða og mig langar að færa fram sögu mína í von um að það undirstriki alvarleika kynferðisofbeldis og dragi, þegar uppi er staðið, úr þessum glæpum, því þeir eru alltof, alltof algengir. Það er mitt svar, við höfum tröllatrú á að færa umræðuna á þetta plan og taka þennan vinkil, það er að segja um ábyrgð og að hér sé ekki um að ræða skrímsli heldur raunverulegt fólk sem þarf síðan að lifa með verknaðinum. Að það sé í raun og veru andsvar við mjög einhliða umræðu sem hefur, að mínu mati, verið skaðleg þolendum hingað til,“ segir Þórdís.

Gefur sínar tekjur til góðgerðarmála

Tom Stranger segir að hann hafi komið inn í þetta ferli vitandi hvaða afleiðingar það gæti haft. Þetta hafi síður en svo verið skyndiákvörðun, heldur langt ferli. Ákvörðunin um að stíga fram í þessu máli hafi ekki verið tekin af sektarkennd eða skömm, heldur vildi hann tala um þessa nauðgun á grundvelli staðreynda og ræða málið heiðarlega.

Ljóst er að bókin Handan fyrirgefningar mun koma út víða um heim og af henni verða líklega talsverðar tekjur. Tom segir að það væri vanvirðing að hann myndi hagnast á þessu ferli og ætlar hann því að gefa allar tekjur sem renna til hans beint til góðgerðarmála.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Mótmæli vegna erindis Stranger og Þórdísar

Mannlíf

„Fyrirgefningin var ekki fyrir nauðgara minn“

Innlent

Segja frá nauðgun og átta ára sáttaferli