Andri Rúnar óstöðvandi - Valur vann

18.06.2017 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Í dag fóru fram tveir leikir í Pepsi deild karla. Efstu lið deildarinnar unnu bæði sína leiki. Valur vann KA á Hlíðarenda og Grindavík lagði ÍBV á heimavelli.

Endar Gullskórinn í Grindavík?

Bolvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason getur hreinlega ekki hætt að skora. Hann skoraði tvö mörk fyrir Grindavík í dag og er því kominn með níu mörk samtals í deildinni. Hann lét ekki þar við sitja og lagði sömuleiðis upp markið sem Sam Hewson skoraði í dag.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði mark ÍBV en hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarna mánuði. ÍBV náði hins vegar ekki að fylgja eftir góðum sigri á KR í síðustu umferð en aðeins eitt af þeim fjórum liðum sem hefur unnið KR í sumar hefur hrósað sigri í næsta leik sem það spilar.

Það lið er Grindavík. Víkingur Reykjavík, Valur og ÍBV hafa öll tapað næsta leik eftir að þau vinna KR.

Meistaraheppni Valsmanna?

Það má með sanni segja að hlutirnir séu að falla fyrir Val þessa dagana. Að því sögðu þá er ekki hægt að taka neitt af Valsliðinu. Það er ljóst að Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson eru búnir að búa til rosalega gott lið.

Valsmenn komust yfir á annarri mínútu leiksins þegar Darko Bulatovic skallað knöttinn í eigið net. Leikurinn í dag var mikill baráttu leikur en Bjarni Ólafur Eiríksson fékk sitt annað gula spjald eftir rúmlega klukkutíma leik og var því sendur í sturtu.

Þrátt fyrir linnulausa pressu KA-manna síðasta hálftímann þá náðu þeir ekki að finna glufur á sterkri vörn Valsmanna en Eiður Aron Sigurbjörnsson kom inn í byrjunarliðið fyrir Rasmus Christiansen sem kom inn á í vinstri bakvörðinn þegar Bjarni fékk rauða spjaldið.

Sitt hvoru megin við vörnina voru svo miðjumaðurinn Haukur Páll Sigurðsson en hann hljóp á við þrjá leikmenn í dag. Hinum megin var svo markvörðinn Anton Ari Einarsson en hann var einstaklega öruggur í öllum sínum aðgerðum í dag. 

Sigurinn heldur Valsmönnum í toppsætinu en tveimur stigum á eftir þeim eru Grindvíkingar.

Mynd með færslu
 Mynd: Thomasz Kolodziejski  -  RÚV
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður