Amnesty sakar CIA um pyntingar í Guantanamo

epa05097665 Supporters and members of the activist group 'The World Can't Wait' hold a rally and march asking for President Obama to close the U.S. detention camp at Guantanamo Bay, Cuba across from the White House in Washington, DC, USA,
Mótmælendur krefjast lokunar Guantanamo-fangabúðanna.  Mynd: EPA
Einn af meintum höfuðpaurum hryðjuverkamannanna að baki árásinni á Tvíburaturnana í New York, sem haldið er í Guantanamo-fangabúðunum, er í brýnni þörf fyrir læknisaðstoð hið fyrsta, vegna misþyrminga sem hann hefur verið beittur í fangavistinni. Þetta kemur fram í bréfi sem Amnesty International sendi til embættismanna í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, og gert var opinbert í gær, viku eftir að það var sent til Pentagon.

Sádi-arabinn Mustapha al-Hawsawi er einn fimm manna, sem sakaður er um að hafa skipulagt árásirnar á Tvíburaturnana þann 11. september 2001, sem kostuðu um 3.000 manns lífið. Í bréfi Amnesty segir að hann þjáist af sársaukafullum og niðurlægjandi meinum í endaþarmi, sem séu afleiðing pyntinga.

Líklegt sé að rekja megi heilsufarsleg vandamál hans til pyntinga af hálfu opinberra, bandarískra starfsmanna, nánar til tekið nauðgana í endaþarm með áhaldi af einhverju tagi, á meðan hann var í haldi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Gerð er krafa um að hann njóti betri aðhlynningar og læknisaðstoðar þegar í stað. Hingað til hafi hann aðeins fengið algjöra lágmarks aðhlytnningu, svo sem væg verkjastillandi lyf, þótt hann hefði í raun þurft á skurðaðgerðum að halda.

Gary Ross, fjölmiðlafulltrúi varnarmálaráðuneytisins, neitaði að tjá sig um bréfið og ásakanirnar sem í því eru að öðru leyti en því, að hann fullyrti að allir fangar fengju sömu heilbrigðisþjónustu og starfsmenn fangabúðanna. 

Í bréfinu, sem er undirritað af Margaret Huang, framkvæmdastjóra Bandaríkjadeildar Amnesty, segir að það brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna að sjá föngum ekki fyrir viðeigandi og viðvarandi læknisaðstoð og endurhæfingu, og það eigi einnig við um fanga sem hafi sætt pyntingum eða öðrum misþyrmingum.

Hawsawi hefur sjálfur kvartað undan því að hann hafi ítrekað orðið fyrir meiðslum vegna harkalegra aðfara CIA-manna við endaþarmsleit, og ætíð verið neitað um nauðsynlega læknishjálp til að bæta skaðann. Lögmenn hans halda því fram að ofbeldisfullar aðfarir leyniþjónustumanna við endaþarmsleitirnar jafngildi nauðgun, og með bréfinu nú hefur Amnesty tekið undir það.