Alvarlegt slys á Hrútafjarðarhálsi

03.01.2016 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Kona á þrítugsaldri slasaðist alvarlega þegar tveir fólksbílar rákust saman á Hrútafjarðarhálsi laust fyrir átta í kvöld. Konan var flutt með sjúkrabifreið að Staðarskála, þar sem þyrla landhelgisgæslunnar sótti hana og flutti á Landspítalann í Fossvogi. Þyrlan lenti í Fossvogi um klukkan 22. Vaktahafandi læknir á bráðamóttöku segir konuna alvarlega slasaða og í lífshættu. Hún var enn í aðgerð á tólfta tímanum.

Ökumenn voru einir í bílunum og var ökumaður hins bílsins, karlmaður á fertugsaldri, fluttur til athugunar á sjúkrahúsið á Hvammstanga. Hann mun ekki hafa slasast alvarlega. Klippa þurfti þakið af bíl konunnar til að ná henni út. Bílarnir köstuðust báðir út af veginum við áreksturinn, hvor sínu megin, og eru um 100 metrar á milli þeirra. Nokkur hálka er á veginum, og eru ökumenn beðnir að sýna fyllstu aðgát.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV