Allt með kyrrum kjörum í Jökulsá

24.08.2014 - 12:53
Mynd með færslu
Engin sýnileg merki eru um jarðhræringar undir Vatnajökli, og ekki er að sjá að vatnsrennsli undan jöklinum hafi aukist. Þetta segir fréttamaður RÚV, sem flaug yfir svæðið í morgun.

Lára Ómarsdóttir, fréttamaður RÚV,  flaug yfir Dyngjujökul í morgun og sagði engin ummerki um óróann undir jöklinum vera að sjá. Hún var lent á Sauðárflugvelli við jökulrætur. Nei, við gátum ekki nein ummerki um alla þessa skjálfta sem orðið hafa undir jöklinum,“ sagði Lára. „Flugvöllurinn sem við erum á er rétt norður af Brúarjökli og við flugum yfir Kverkfjöll og Dyngjujökul, sáum upp eftir Bárðarbungu, fórum svo yfir Jökulsáraurana og flæðurnar og það voru engin ummerki um gos, né heldur um skjálfta né aukið vatnsrennsli undan jöklinum.“

Fréttamenn RÚV munu fylgjast með þróun mála á svæðinu og sýna myndir úr fluginu í kvöldfréttum, en ágætt skyggni var yfir jöklinum í morgun.