Allt einn sirkus!

05.10.2016 - 16:09
Leikarinn Brontis Jodorowsky, sonur chileanska kvikmyndaleikstjórans Alejandros Jodorowskys, sem er heiðursleikstjóri á RIFF, leikur í nýjustu myndum föður síns, Dansi raunveruleiks og Ljóði án enda. Hann var staddur hér á landi á dögunum og Lestin tók hann tali.

 

Chileanski kvikmyndaleikstjórinn Alejandro Jodorowsky er heiðursleikstjóri alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar RIFF að þessu sinni. Jodorowsky er einskonar goðsögn í lifanda lífi, 87 ára gamall, en samt enn í fullu fjöri, og á allra síðustu árum hefur hann gert tvær kvikmyndir sem sýndar eru á RIFF að þessu sinni, Dans raunveruleikans, frá árinu 2013, og Ljóð án enda, sem frumsýnd var í fyrra. Um er að ræða sjálfsævisögulegar myndir sem fjalla um bernsku Jodorowsky í Chile, bæði í smábænum Tocopilla í norðanverðu landinu og í Santiago, myndirnar tvær hafa fengið frábæra dóma, sagðar bæði ljóðrænar og áleitnar, en Jodorowsky hefur lýst því yfir að hann vilji gera heilar fimm myndir í þessari röð áður en yfir lýkur. Þú og ég, höfum alltaf verið minningar. Aldrei raunveruleiki. Einhvern dreymir okkur. Gefðu þig blekkingunni á vald. Lifðu!

Alejandro Jodorowsky fæddist í Chile árið 1929, ólst upp í fyrrnendum smábæ Tocopilla, en fluttist síðan til Santiago, þar sem hann starfaði meðal annars sem trúður í sirkus samhliða námi. 23ja ára gamall sleit hann öll tengsl við fjölskyldu sína, flutti til Parísar þar sem hann lærði meðal annars látbragðsleik hjá franska látbragðsleikaranum Marcel Marceau, stofnaði listamannahóp með spænska leikskáldinu og kvikmyndaleikstjóranum Fernando Arrabal, og hóf störf sem kvikmyndaleikari. Á meðal þekktustu mynda Jodorowskys eru El Topo frá árinu 1971 og Holy Mountain frá árinu 1973. Jodorowsky er fjölhæfur með afbrigðum, hann hefur ekki aðeins gert fjölmargar kvikmyndir sem vakið hafa heimsathygli, heldur einnig sett upp leiksýningar, skrifað teiknimyndasögur, skáldsögur og ljóð, auk þess sem maðurinn sjálfur er einskonar gúrú, eins og þeir sem hann hafa hitt, geta borið vitni um. Kvikmyndir hans eru undir sterkum áhrifum frá súrrealisma, austurlenskum spíritisma, sækadelíu og hinu dulræna, og þær hafa haft mikil áhrif, lengi.

Alejandro Jodorowsky er eins og áður segir heiðursleikstjóri RIFF, en sá sér ekki fært að heimsækja hátíðina að þessu sinni, það gerir hins vegar sonur hans, leikarinn Brontis Jodorovsky, sem fer með hlutverk föður leikstjórans í myndunum tveimur sem sýndar eru á RIFF; áðurnefndum Dansi raunveruleikans og Ljóði án enda. Brontis Jodorovsky svaraði spurningum eftir sýningar á myndum föður síns á dögunum, og stýrði Masterclass í Norræna húsinu um helgina. Lestin hitti Brontis Jodorowsky nýlentan, á Hlemmi Square skömmu fyrir helgi, til að ræða við hann um myndir föður hans, og hans eigin reynslu af því að fara með hlutverk í þeim, og raunar sitthvað fleira. 

 

Mynd með færslu
Eiríkur Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi