Alexander: Gaman að pirra Rutenka

16.01.2016 - 16:13
Alexander Petersson, landsliðsmaður í handbolta, segir að það sé gríðarlega erfitt að spila gegn Hvít-Rússanum Siarhei Rutenka. Þó sé ákaflega gaman að ná að pirra hann í vörninni.

Alexander á von á erfiðum leik gegn Hvít-Rússum á morgun. Þeir séu með stóra og sterka leikmenn, unga stráka sem séu ferskir. „Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur, jafnvel erfiðari en á móti Noregi.“

Hvít-Rússar töpuðu gegn Króötum í gær, 27-21, og sýndu í þeim leik að þeir búa yfir mörgum mismunandi afbrigðum af varnarleik. 

„Ég held þeir byrji í 5-1 vörn úti á kantinn á móti Aroni. Það er líka fínt fyrir okkur, við erum með góða miðjumenn og línumenn og getum leyst þetta.“

Skærasta stjarnan í liði Hvít-Rússar er stórskyttan Siarhei Rutenka sem hefur 6 sinnum unnið Meistaradeild Evrópu með þremur mismunandi liðum. Alexander hefur áður glímt við Rutenka og hlakkar til að taka á honum í vörninni á morgun.

„Það er ekki mjög þægilegt að spila á móti honum en það er líka gaman að pirra hann aðeins, þá fer hann aðeins niður. Við sjáum til hvernig þetta er á morgun.“

Leikur Íslands og Hvíta-Rússlands hefst á morgun klukkan 15:00 og verður sýndur beint á RÚV og lýst beint á Rás 2.

Viðtalið við Alexander má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður