Aldrei fleiri gegn dauðarefsingu

20.11.2012 - 01:18
Mynd með færslu
Metfjöldi ríkja greiddi atkvæði með tillögu um afnám dauðarefsingar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld. 110 fulltrúar greiddu henni atkvæði, 39 voru á móti en 36 sátu hjá. Tillagan hvetur til þess að ríki hætti að lífláta brotamenn, hún hefur ekkert lagagildi.

Bandaríkin eru eina vestræna ríkið þar sem dauðarefsing liggur við alvarlegustu glæpum. Fulltrúi þeirra greiddi atkvæði gegn tillögunni í gærkvöld, ásamt meðal annars fulltrúum Kína, Norður-Kóreu, Írans og Sýrlands.

Stjórnvöld í Kína eru talin hafa líflátið allt að fjögur þúsund dauðadæmda menn í fyrra. Í Íran voru að minnsta kosti 360 aftökur, 82 í Sádi-Arabíu, 68 í Írak, 43 í Bandaríkjunum, 41 í Jemen og 30 í Norður-Kóreu.

Ályktunartillaga um afnám dauðarefsingar er borin upp á Allsherjarþinginu annað hvort ár, í hittið fyrra greiddu 107 ríki tillögunni atkvæði.