Alda felldi eldri konu um koll í Reynisfjöru

14.02.2016 - 21:13
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV
„Þetta gerist svo hratt. Allt í einu kemur ein alda sem er mun stærri,“ segir Stefán Helgi Valsson ferðamálafræðingur og leiðsögumaður en hann náði mynd því þegar eldri kona fékk á sig öldu í Reynisfjöru þann 1.febrúar. Hann segist aldrei hafa sé slíkan fjölda ferðamanna að vetri til og nú. Íslendingar verði að fara bregðast við auknum ferðamannastraumi.

„Við stóðum þarna þrír leiðsögumenn rétt hjá. Þar á meðal sá sem var með konunni og kom henni til hjálpar. Þetta gerist svo hratt. Fólk vanmetur þetta alltaf og fer nær og nær. Svo kemur bara stærri alda.“

Stefán náði fleiri myndum þennan dag sem sjá má hér að neðan og að ofan. Á einni þeirra sést ferðamaður með þrífót og myndavél fá yfir sig öldu og á annari sést fjölmennur hópur ferðamanna hlaupa undan öldu í Reynisfjöru.

Stefán segir helstu breytinguna nú miðað við önnur ár sé að fjöldi ferðamanna sé mun meiri. „Ég hef verið leiðsögumaður í 29 ár og ég hef aldrei séð annan eins fjölda. Fjöldinn við Gullfoss þessa dagana er bara eins og björtum sumardegi fyrir nokkrum árum. Þegar ferðamönnum fjölgar svona mikið aukast auðvitað líkurnar á því að slys eigi sér stað.“

En hvað telur Stefán að þurfi að gera til að bregðast við? „Það er auðvitað gullspurningin og henni getur verið vandasamt að svara. Við Reynisfjöru mætti til dæmis girða bílastæðið af. Þannig að allir þurfi að ganga út um hlið þar sem væru áberandi skilti og viðvaranir. Auðvitað væri gott að vera með landverði en þá þarftu aðstöðu og að manna vaktir sem er kostnaðarsamt. Það eru bara svo miklu fleiri að koma núna en áður og við þurfum að bregðast við á viðeigandi hátt. Tökum bara salernin sem dæmi. Við leiðsögumenn erum búnir að vera tala um þetta í 40 ár en samt gerist ekkert.“

Stefán nefnir sem dæmi um stöðu mála að salerni úti á Snæfellsnesi hafi verið lokað nánast frá því að það var byggt. Vegna bilunar í dælu sem enginn lagi.

Stefán segist hafa lesið um flest þau vandamál sem Ísland standi frammi fyrir núna í náminu fyrir 20 árum. „Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Auðvitað vonar maður alltaf að stjórnvöld fari að bregðast við en miðað við hvernig þetta hefur verið þá er maður ekkert alltaf vongóður.“

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV
Aðstæður eru fljótar að breytast í Reynisfjöru.