„Ákvörðunin er ekki mín,“ segir Guðni forseti

16.06.2017 - 12:29
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að hann hafi ekki tekið ákvörðun um það að veita kynferðisbrotamanninum Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, uppreist æru. Sú ákvörðun sé dómsmálaráðherra og hans eina aðkoma sé formlegs eðlis. Hann segir málið ömurlegt og að hann sjái ekki hvernig samfélagið hafi gagn af því að Robert snúi aftur til fyrri starfa sem lögmaður.

Robert var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum á aldrinum 14 og 15 ára. Hæstiréttur ákvað í gær að Robert skyldi fá lögmannsréttindi sín aftur. Í dómnum kom fram að forseti hefði veitt honum uppreist æru í september að tillögu innanríkisráðherra. Ein stúlknanna skrifaði á Facebook í gær að henni fyndist forsetinn hafa brugðist sér með þessu.

„Forseti ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum“

Guðni Th. Jóhannesson segir að hann beri enga formlega ábyrgð á ákvörðuninni. „Þeir sem hafa afplánað dóm sækja um uppreist æru, ekki til skrifstofu forseta Íslands, heldur til ráðuneytisins. Þar er farið yfir umsóknina, hvort hún standist almenn hegningarlög sem gilda um uppreist æru, hvort nauðsynleg fylgigögn fylgi og þar fram eftir götunum, og þar er, vænti ég, málefnaleg og rökstudd niðurstaða fengin,“ segir Guðni í samtali við fréttastofu.

„Þegar ákvörðunin í ráðuneytinu kemur svo á mitt borð til formlegrar staðfestingar þá fylgir enginn rökstuðningar, engin fylgiskjöl, engin greinargerð, engar upplýsingar um þann sem sækir um, engar upplýsingar um þau afbrot sem hann framdi, heldur er þetta lokaskref á ferlinu, staðfesting forseta, sem er reyndar arfur frá liðinni tíð þegar forseti hafði miklu meiri völd en hann hefur núna,“ segir hann.

„Ég bið bara um að fólk sýni því skilning að þótt það segi að forminu til að forseti geri hitt og þetta þá er það bara ekki þannig í stjórnskipaninni. Það þætti saga til næsta bæjar, og hefur held ég aldrei gerst, að forseti neitaði að skrifa undir stjórnarathafnir, enda er forseti ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæmda vald sitt,“ segir forsetinn.

Þarf ekki meðaumkun

Guðni segist oft, sem fræðimaður, í kosningabaráttu sinni og eftir að hann varð forseti, hafa talað um nauðsyn þess að í stjórnarskrá og stjórnskipan sé gert skýrara hvað forseti geri í raun og hvað ekki. „Það er engum þægilegt, ekki fólkinu í landinu og ekki heldur þeim sem þessu embætti gegnir, að það sé á skakk og skjön hvað forseti gerir í raun og hvað hann gerir ekki í raun heldur staðfestir aðeins með undirskrift sinni.“

„Hitt er miklu ríkara í mínum huga, hversu sársaukafullt og sorglegt það er að núna þurfa fórnarlömb þessa manns að þola upprifjun á þessu öllu. Ég er ekki að biðja um neina meðaumkun, ég þarf hana ekki. Þessar stúlkur sem lentu í klónum á þessum manni þurfa skilning og hjálp enda hafa þær, eftir því sem ég best veit, staðið sig eins og hetjur, og þær þurfa allan þann stuðning,“ segir forsetinn.

„Þær allar mega hafa samband við mig“

„Ég vil bara ítreka hvað mér finnst ömurlegt að þetta mál sé komið upp og leyfi mér að bæta við að ég get ekki séð hvernig samfélagið hefur gagn af því að þessi tiltekni maður, þótt hann hafi afplánað sinn dóm, taki til fyrri starfa,“ segir Guðni og beinir því til stúlknanna að hann sé reiðubúinn til að tala við þær.

„Þær allar mega hafa samband við mig, hvenær sem er og hvernig sem er ef ég get eitthvað orðið að liði. Þá segir fólk auðvitað: af hverju hættirðu ekki bara við að skrifa undir? Þá bið ég fólk að sýna því skilning að ákvörðunin er ekki mín. Ég er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnun samkvæmt stjórnarskrá og stjórnskipan,“ ítrekar Guðni.

„En sem einstaklingur í þessu landi, sem faðir, þá er ég svo leiður yfir því að það sé hægt að líta svo á að ég sé frekar í liði með þeim sem valda fórnarlömbunum sorg og skaða heldur en hinum sem eiga að hjálpa fólki sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Ég verð bara að lifa með því og standa og falla með þvi. Það er enginn dans á rósum alla daga að gegna þessu embætti,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.