Ákall til almennings – magnþrungin ræða

05.03.2016 - 15:12
„Þetta var ákall til almennings. Að vekja athygli á stöðu okkar og kalla eftir stuðningi,“ segir Hjördís Heiða Ásmundsdóttir sem hélt magnþrungna ræðu á fimmtudag þar sem kjörum öryrkja og eldri borgara var mótmælt. Hún segist hafa brotnað niður þegar fáir sýndu mótmælunum áhuga eftir marga vikna vinnu og skipulagningu. Ræðu Hjördísar má sjá hér að ofan.

Brotnaði niður

„Ég bara brotnaði niður þegar ég sá að enginn sýndi þessu áhuga. Við sendum boð á alla Alþingismenn, alla fjölmiðla og alla aðila sem að þessum málaflokki koma, svo sem Öryrkjabandalagið, félag eldri borgara og fleiri,“ segir Hjördís. Hún undirstrikar þó þakklæti sitt til þeirra fáu sem mættu og létu sig málið varða. Einnig þeirra sem sýndu samstöðu en gátu ekki sótt mótmælin.

Í ræðu sinni hvatti hún til samstöðu. Samstöðu á meðal fólks. Það sé ekki hægt að bjóða fólki upp á þann veruleika sem blasi við þúsundum öryrkja og eldri borgara. „Ég verð að viðurkenna að ég er að upplifa svartsýni sem ég hef ekki fundið fyrir áður. Fólk áttar sig ekki á því hversu alvarleg staðan er. Fólk er að svelta og þarf jafnvel að neyta sér um hreinlætisvörur eða lyf sem það þarfnast.“

„Er öllum skítsama?“

Hjördís spyr sig hvort að þetta sé samfélag sem hún kæri sig um að búa í. „Er þetta samfélagið sem ég vil ala börnin mín upp í? Er öllum bara skítsama um að fólk sé niðurlægt á hverjum degi? Ég skammast í dag fyrir að vera Íslendingur og það er sárt.“

Hjördís segir að hver dagur sé barátta við kerfið. Hún þurfti að bíða í hátt í þrjú ár eftir hjólastól. „Þegar starfsmaður Sjúkratrygginga Íslands sagði við mig að ég þyrfti bara að bíða eins og allir hinir þá bara gerðist eitthvað innra með mér. Hvað með alla hina? Sem hafa hreinlega ekki orku í að berjast fyrir réttindum og gefast bara upp.“

Missti máttinn eftir læknamistök

Hjördís missti mátt fyrir neðan mitti eftir læknamistök árið 2004. Hún segir baráttu sína hafa verið sérstaklega erfiða þar sem að ekki hafi verið gengist við mistökunum og því hafi ekki verið skilgreint hvað hrjái hana.

„Ef það er ekki til nafn eða skilgreining yfir hlutina þá er allt erfiðara og þyngra. Hvaða máli skiptir það? Ég þarf alveg jafn mikið á hjólastólnum að halda.“

Standið með okkur

Hún ítrekar ákall sitt, til almennings og stjórnvalda. „Standið með okkur. Horfið og sjáið í raun og veru hvað er að gerast. Ég er ekki ein. Við erum þúsundir í þessari stöðu. Ég er bara ein af mörgum.“

Samkvæmt tölum Hagstofunnar skortir tæplega fjórðung Öryrkja hér á landi efnisleg gæði.

Ræðu Hjördísar má lesa hér að neðan:

„Ég ætla bara að viðurkenna fyrir ykkur núna að aldrei hefði ég getað ímyndað mér að það væri jafn erfitt og raun ber vitni að halda mótmæli. Aldrei hefði þegar getað ímyndað mér jafn mikið skilningsleysi og tillitsleysi! Og að fólk til skuli tala illa til annars fólks sem er að reyna gera gott. Við verðum að halda áfram. Við verðum að sitja og standa saman. Við getum ekki boðið öryrkjum og eldri borgurum upp á niðurlægingu á hverjum degi. Upp á að eiga ekki rétt, eiga ekki sömu mannréttindi og aðrir, eiga ekki rétt á að fara út í búð eins og aðrir, eiga ekki rétt á að komast á tónlistaratburði hjá börnunum þeirra af því að það kostar pening. Eða af því að það er brekka upp. Það eru tröppur allstaðar. Ég bið ykkur innilega, hvert og eitt ykkar; haldið í vonina og höldum áfram að berjast! Við verðum, þetta snýst um mannréttindi hvers eins og einasta. Stöndum saman!“