Ákæru fyrir hatursáróður vísað frá dómi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá dómi ákæru Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn Pétri Gunnlaugssyni, dagskrárgerðarmanni á Útvarpi sögu. Hann var ákærður fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs í útvarpsþætti sínum, Línan er laus. Ákært var fyrir ummæli í fjórum samtölum Péturs við hlustendur Útvarps sögu. Samtökin '78 höfðu kært umræðu sem fór af stað vegna áforma Hafnarfjarðarbæjar um að taka upp hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins.

Pétur krafðist þess að ákærunni yrði vísað frá dómi. Hann sagði að óljóst væri fyrir hvaða ummæli væri ákært þar sem birt væru samtöl hans og viðmælenda án til að tilgreina sérstaklega hvaða ummæli teldust falla undir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs. Að auki væri óljóst hvort hann væri ákærður fyrir sín ummæli eða viðmælenda sinna.

Í úrskurði Guðjóns St. Marteinssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir að mörg þeirra ummæla, sem tilfærð eru í ákærunni, hljóti að teljast mjög almenns eðlis. Að því leyti verði ákæran að teljast óglögg þannig að erfitt geti verið að átta sig á því hver af ummælunum séu talin saknæm. Sakborningur geti því átt erfitt með að verjast sakargiftum. Dómarinn telur því að tilgreina hefði þurft nákvæmar þau ummæli sem ákært er fyrir til að ákæran geti talist nógu skýr.

Dómarinn telur líka verulegan galla á ákærunni að tilgreina ranglega heiti brots í ákærunni. Dómarinn vísar þar til þess að talað er um hatursorðræðu og útbreiðslu haturs í ákærunni. Ekkert slíkt er hins vegar tiltekið í þeirri grein almennra hegningarlaga sem vísað var til í ákærunni. Þar er talað um að hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan sambærilegan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða skuli sæta refsingu. 

Ríkið var dæmt til að greiða málsvarnarlaun sem hljóða upp á 716 þúsund krónur. Pétur varði sig sjálfur í upphafi en Jón Steinar Gunnlaugsson tók síðan við málsvörninni.