Ákærður fyrir útbreiðslu haturs á Útvarpi Sögu

30.11.2016 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðarmaður á Útvarpi Sögu, hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs í útvarpsþættinum „Línan er laus“ miðvikudaginn 20. apríl. Ákæran er hluti af kærum Samtakanna '78 vegna umræðu sem fór af stað þegar Hafnarfjarðarbær ákvað að taka upp hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. Í ákærunni er Pétur ákærður fyrir ummæli sem hann lét sjálfur falla en líka fyrir að útvarpa ummælum þeirra sem hringdu inn í þáttinn.

Í ákærunni er fjögur samtöl Péturs við hlustendur skrifuð upp. Eitt þeirra er svona samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu:

  • [Hlustandi]: Ég veit um það en ég bara segi, eða skilaboð til þessarar stelpu eru þau.
  • [Ákærði]: Hmm.
  • [Hlustandi]: Ætlar hún að sýna hvernig lessur eðla sig?
  • [Ákærði]: Hmm
  • [Hlustandi]: Þó ég sé dónaleg, ég veit það en þetta er það sem hún ætlar að kenna þeim og þá verður hún að sýna þeim það.
  • [Ákærði]: Já.
  • [Hlustandi]: Og mundi nokkur leyfa henni að fara að þukla á börnunum. Ég segi bara það, ég er ekki lesbía, ég á átta börn og hef aldrei verið lesbía.[Ákærði]: Það er þannig að það er ekki endilega fólk sem er samkynhneigt eða konur sem eru lesbíur sem eru að mæla með þessu þetta er bara gagnkynhneigt fólk sem er að vilja að börnin fái þessa svokölluðu fræðslu það er það sem er að gerast í málinu.

Ummælin sem Pétur og hlustendur létu falla í umræddum útvarpsþætti eru sögð fela í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitunar þeirra.

Pétur greindi sjálfur frá ákærunni í símatíma útvarpsstöðvarinnar í síðustu viku að því er fram kom á vef visir.is. „Ég er bálreiður, ég skal alveg viðurkenna það að einhver lögreglustjóri hér skuli saka mig um þetta,“ sagði Pétur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem útvarpsmaðurinn er dreginn fyrir dóm vegna ummæla sinna - hann var fyrr á þessu ári sýknaður í meiðyrðamáli sem Kristján Snorri Ingólfsson, formaður Lýðveldisflokksins, höfðaði á hendur honum. 

Í gær greindi RÚV frá því að Jón Valur Jensson, guðfræðingur, hefði einnig verið ákærður fyrir hatursorðræðu vegna skrifa á bloggsíðu sinni.  Hann sagði í samtali við fréttastofu að ákæran væri með öllu tilhæfulaus og lýsti hneykslan sinni á því sem þarna væri gert - ekkert í skrifum hans væri hægt að flokka sem hatursorðræðu.

Fram kom í Fréttablaðinu í síðustu viku að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði ákært  alls átta fyrir hatursorðræðu í tengslum við kærur Samtakanna '78 vegna hinsegin fræðslu Hafnarfjarðarbæjar. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV