Ákærður fyrir að valda slysi á Teslu

04.05.2017 - 17:50
epa04727763 The logo of a Tesla Motors Model S is seen at a parking lot of the Tesla Motors Headquarters in Palo Alto, California, USA, 30 April 2015.  EPA/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA
Héraðssaksóknari hefur ákært Magnús Ólaf Garðarsson, einn af stofnendum United Silicon og fyrrverandi forstjóra verksmiðjunnar, fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi með ofsaakstri á kraftmikilli Tesla-bifreið í desember. Maður sem slasaðist í árekstrinum krefur Magnús um eina milljón króna í skaðabætur.

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag ásamt annarri ákæru, einnig fyrir ofsaakstur á sama bíl nokkrum mánuðum fyrr. Málin tvö voru við það tilefni sameinuð í eitt. Magnús fékk frest til að taka afstöðu til sakarefnisins.

Í stærra málinu er Magnús ákærður fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi þriðjudagsmorguninn 20. desember. Samkvæmt ákærunni ók hann Teslu-bíl sínum á allt að 183 kílómetra hraða vestur Reykjanesbraut í Hafnarfirði og tók fram úr fjölda bíla við álverið í Straumsvík „þannig að minnstu munaði að árekstur yrði við bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt,“ eins og segir í ákæru. 

Hann ók svo aftan á vinstra afturhorn annars bíls við Hvassahraun þannig að sá bíll hafnaði utan vegar og varð fyrir skemmdum. Ökumaður bílsins, hálffertugur karlmaður, skall með höfuðið í stýrið, missti meðvitund um stund og hlaut 2,5 sentimetra langan skurð á augnloki, bólgu á nefi og glerungssprungur á tveimur tönnum. Hann krefur Magnús sem áður segir um eina milljón í bætur.

„Með akstri sínum raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og á ófyrirleitin hátt stofnað lífi og heilsu [hins ökumannsins] auk annarra vegfarenda, sem leið áttu um Reykjanesbraut á sama tíma, í augljósan háska en akbrautin var blaut og hál og slæmt skyggni var vegna veðurs og myrkurs,“ segir í ákærunni.

Með hinni ákærunni er Magnúsi gefið að sök að hafa ekið Teslunni á allt að 148 kílómetra hraða á Reykjanesbrautinni vestan Grindavíkurafleggjara í ágúst í fyrra. Hann féllst ekki á að greiða sekt fyrir hraðaksturinn og því er málið komið fyrr dóm.

Krefjast þess að Teslan verði gerð upptæk

Héraðssaksóknari krefst þess að Magnús verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaður og að hann verði sviptur ökuréttindum. Þá er þess krafist að Tesla-bíllinn verði gerður upptækur í ríkissjóð, sem er heimilt þegar um sérstaklega vítaverðan akstur er að ræða. Bíllinn er 690 hestöfl og með einkanúmerið NO CO2, sem vísar til þess að hann er rafmagnsbíll og blæs því ekki frá sér koltvísýringi.

Fréttastofa hefur áður sagt frá tilraunum Magnúsar til að fá Tesluna aftur í hendur frá yfirvöldum, sem hafa lagt hald á hana. Í úrskurðinum þar sem þeirri beiðni var hafnað kom fram að Magnús væri með tíu hraðakstursmál í kerfinu á Íslandi og eitt í Danmörku. Sjö þeirra væru frá síðasta ári.

Þar sagði einnig að Magnús telji málið afar einfalt. Hann hafi einfaldlega misst stjórn á bílnum vegna ytri aðstæðna og því hafi ekkert tilefni verið til ítarlegrar og íþyngjandi rannsóknar. Auk þess sé verðmæti bílsins töluvert og því mikið inngrip að leggja hald á hann.

Saksóknari mótmælti þessu og sagði að til stæði að fara með bílinn til útlanda ef haldinu yrði aflétt og þar með yrði mögulega erfitt að nálgast hann ef fallist yrði á upptökubeiðnina. Ástæðan fyrir haldlagningunni hafi meðal annars verið að koma í veg fyrir frekari brot Magnúsar.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV