Air Berlin aflýsti ferð vegna goss

24.08.2014 - 11:51
Mynd með færslu
Heimspressan hefur fylgst af athygli með þróun mála í Bárðarbungu síðustu daga, aðallega vegna möguleikans á því að raskanir verði á flugumferð eins og raunin varð fyrir fjórum árum. Eitt flugfélag, Air Berlin, hefur fell niður ferðir til Íslands vegna ástandins.

„Hluti af flugumsjónarsvæði Íslands er lokaður eftir ummerki um mögulegt gos í gær - slíkt gos gæti sent ösku hátt upp í loft.“

Svona byrjaði frétt breska ríkisútvarpsins BBC klukkan tíu í morgun og veffrétt á heimasíðu BBC um þróun mála við Bárðarbungu hefur verið meðal þeirra mest lesnu. Vefmiðlar og fréttastöðvar víða um heim hafa fjallað ítarlega um atburðina í Vatnajökli og þessi umfjöllun tók kipp í gær þegar Veðurstofan ákvað að lýsa yfir hæsta viðvörunarstigi vegna flugumferðar. Reuters fréttastofan sendi út sjónvarpsfrétt í gær með myndum sem tökumaður RÚV tók í flugi Landhelgisgæslunnar - þar sem talað var um möguleikann á gosi undir jöklinum og afleiðingum þess - öskunni sem stigið gæti upp í himinhvolfið. 

„Ef það gerist, þyrfti að breyta flugáætlunum eða fella niður flug - og á þessum tíma árs eru það ekki góðar fréttir fyrir ferðamenn,sagði í frétt Reuters.

Forsvarsmenn flugfélagsins AirBerlin felldu niður flugferð frá Berlín sem átti að lenda á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöld. Ástæðan voru fregnir af mögulegu eldgosi í Dyngjujökli. Að sögn Sigþórs Kristins Skúlasonar, framkvæmdastjóra Airport Associates, sem sér um afgreiðslu fyrir Air Berlin á Keflavíkurflugvelli, vildu yfirmenn félagsins ekki eiga á hættu að flugvélin yrði föst hér á landi ef til goss kæmi. Önnur flugfélög hafa haldið óbreyttum flugáætlunum.