Áhugaleysi víki fyrir faglegri umræðu

07.10.2014 - 17:43
Mynd með færslu
Fundi samninganefnda tónlistarskólakennara og ríkisins lauk hjá ríkissáttasemjara á fjórða tímanum. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan eitt á morgun.

Sigrún Grendal Jóhannesdóttir formaður félags tónlistarskólakennara segir að þá sé fyrirhugað að setjast niður og fara í gegnum ákveðna þætti í kjarasamningnum. Sigrún segir jákvætt að viðhorfsbreyting hafi orðið hjá samninganefnd ríkisins sem hafi fyrst sýnt því áhuga að ræða faglega um inntak kjarasamningsins þegar atkvæðagreiðslan um verkfallsboðun stóð.

„Á síðasta fundi, sem var í síðustu viku meðan á atkvæðagreiðslu stóð, og síðan á þessum, erum við í fyrsta skipti að finna fyrir því að menn sýni því áhuga að ræða faglega um inntak kjarasamningsins,“ segir hún. „Fyrir þá fundi er það mat samninganefndar að það hafi ríkt algjört áhugaleysi og það hafi staðið okkar vinnu fyrir þrifum. Enda segir það sig sjálft þegar liðnir eru tíu mánuðir frá viðræðuáætlun var undirrituð milli samningsaðila.“

Tónlistarskólakennarar, sem eru fimm prósent félagsmanna í Kennarasambandi Íslands, segjast krefjast sambærilegra kjarabóta og önnur félög innan Kennarasambandsins hafi náð. Takist ekki að semja skellur verkfall tónlistarskólakennara á 22. október næstkomandi.