Áhersla lögð á vopnahlé

11.02.2016 - 17:48
Russian Foreign Minister Sergey Lavrov, left, and U.S. Secretary of State John Kerry shake hands  prior to bilateral talks in Munich, Germany,  Thursday, Feb. 11, 2016. (AP Photo/Matthias Schrader)
Sergei Lavrov og John Kerry í München í dag.  Mynd: AP
Lögð er áhersla á vopnahlé í viðræðum um málefni Sýrlands í München í Þýskalandi. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði fyrr í dag að Rússar hefðu lagt fram ítarlega tillögu um vopnahlé í Sýrlandi.

Lavrov sagði að tillagan hefði verið afhent Bandaríkjamönnum og beðið væri viðbragða frá þeim áður en hún yrði kynnt öðrum.  Fregnir herma að í tillögu Rússa sé gert ráð fyrir vopnahléi frá og með 1. mars, sem stjórnarandstæðingar segja að muni gefa sýrlenska stjórnarhernum færi á að styrkja frekar stöðu sína í grennd við borgina Aleppo.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði áður en viðræður hófust í München í dag að þar yrðu ýmis atriði rædd, en kvaðst sérstaklega vonast eftir árangri í viðræðum um vopnahlé og flutning hjálpargagna til nauðstaddra. Þá var haft eftir bandarískum stjórnarerindreka síðdegis að Bandaríkjamenn þrýstu á að komið yrði á vopnahléi sem fyrst.

Fundinn í München sitja einnig utanríkisráðherrar annarra ríkja sem koma að friðarumleitunum stríðandi fylkinga í Sýrlandi, en stefnt er að því að þær hefjist á ný 25. þessa mánaðar. Ýmis skilyrði og ágreiningsmál eru þó enn óútkljáð, meðal annars hverjir eigi að fá að sitja viðræðurnar og hvaða hópa skuli skilgreina sem hryðjuverkasamtök.