Ágangur hvala truflar loðnuveiðarnar

07.03.2016 - 14:41
epa000242528 A southern humpback whale displays his tail at Platypus bay in the Hervey Bay Marine Park, Australia, Saturday 31 July 2004. Thousands of whales have begun their migration from Antarctic waters to breed in the warmer waters off the Queensland
 Mynd: EPA  -  AAP
Loðnan er dreifð og erfitt að kasta á hana vegna ágangs hvala, segir skipstjóri á loðnumiðunum. Lítið hefur gengið síðustu daga á veiðum en uppsjávarskipaflotinn er allur kominn á Faxaflóa nærri hrygningarstöðvunum. Flest skipin hafa komið sér upp hvalafælum. Gríðarleg aukning hefur orðið á hnúfubak á síðasta áratug en þessi sjaldgæfa tegund taldi aðeins um 2000 dýr þegar mælingar hófust árið 1987. Árið 2007 var stofninn um 15.000 dýr en niðurstöður eru ekki komnar úr talningum frá því í fyrra.

„Maður hefur þá tilfinningu að þorskurinn og hvalurinn séu að éta þetta allt,“ segir Guðlaugur Jónsson skipstjóri á Venusi en hann segir ekki ljóst hvernig hvalafælurnar virka á grunnslóð. Almennt nýta skipin fælur sem líkja eftir háhyrningshljóðum og eru á nótinni sjálfri. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með tæki um borð í Beiti NK 123 sem á að fæla háhyrninga frá en hvorug aðferðin virðist skila nægilega góðum árangri. „Ef það sést torfa þá er hvalurinn kominn í hana,“ segir Guðlaugur.

Aldrei verið jafn mikil vandamál með hvalinn

„Það hefur aldrei komið svona mikill hvalur með göngunni austur fyrir og suður fyrir land,“ segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki NK 122. Hann segir jafnframt að skipin hafi aldrei verið í jafn miklum vandræðum með hvalinn á Faxaflóa eins og í ár.  

„Það vantar heildarsýnina á það hvað er að gerast í hafinu, segir Smári Geirsson áhugamaður um sögu hvala við Ísland. „Menn hefðu trúað því að hvalurinn væri farinn á suðlægari slóðir í haust, en þá voru þarna um 12.000 dýr enn þá í göngunni. Við vitum ekki hvort þarna er á ferðinni hækkandi sjávarhiti, minnkandi æti eða hvað. En það er ljóst að langreyðurinn og hnúfubakurinn ganga mikið í loðnuna. Menn hafa lýst þessu eins og loðnuskipin séu stödd á hverasvæðum, þar sem mestur atgangurinn er.“

Bræla er á miðunum sem stendur og þau skip sem náð hafa afla á leið til heimahafnar með hann. Gera má ráð fyrir að loðnuvertíð standi út mars en hrognafylling er nú orðin nægilega góð eða yfir 25%, og fást þá verðmætastar afurðir úr aflanum. Hrognin eru kreist úr loðnunni og fryst fyrir Japansmarkað en það sem eftir stendur af skepnunni er nýtt í mjölvinnslu.