Aftur úrskurðaður í gæsluvarðhald

10.03.2016 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hæstiréttur dæmdi í dag að háskólastúdent sem stakk félaga sinn með hnífi aðfarnótt sunnudags, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. apríl og sneri þar með við úrskurði héraðsdóms í gær. Í greinargerð lögreglu kemur fram að sá sem fyrir hnífstungunni varð hafi verið verið meðvitundarlaus þegar lögregla kom að, og í lífshættu, þegar komið var með hann á sjúkrahús.

Hnífurinn hafi gengið djúpt í lifur hans og rispað lunga.  Manninum er haldið sofandi og mun vera áformað að vekja hann í næstu viku.   Hæstiréttur telur að sá sem stakk sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða sérstaklega hættulega líkamsárás.  Með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja að maðurinn gangi ekki laus, meðan mál hans er tiil meðferðar. 

Í gæsluvarðhaldskröfu lögreglu kemur fram að mennirnir hafi deilt fyrr um kvöldið og að um miðnætti hafi árásarmaðurinn haft samband við annan félaga sinn og falast eftir hnúajárnum, því hann ætli að drepa brotaþola. 
Ekki kemur annað fram um hnúajárn í greinargerðinni.   Árásarmaðurinn segist hins vegar hafa haft með sér hníf þegar hann fór út úr íbúð sinni upp úr miðnætti því hann hafi óttast brotaþola.  Skömmu síðar  laust þeim saman, þar fyrir utan, sem lyktaði með því að hann stakk félaga sinn. 

Í úrskurði héraðsdóms sem hafnaði gæsluvarðhaldskröfu lögreglu segir að þótt maðurinn sé undir sterkum grun um brot sem getur varðað meira en tíu ára fangelsi, þá hafi ekki fram komið að skýrar vísbendingar um að hann sé hættulegur umhverfi sínu.  Hæstréttur mat málið öðruvísi, maðurinn hafi viðurkennt að hafa stungið brotaþola og brot hans, sem geti varðað allt að ævilöngu fangelsi, sé þess eðlis að ófært sé að hann gangi laus.