Afla gagna frá Sri Lanka í saumastofumáli

20.02.2016 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögregla segir að rannsókn á meintu vinnumansali í Vík í Mýrdal sé afar umfangsmikil og afla þurfi ógrynnis gagna, meðal annars frá Sri Lanka. Fyrirtæki sem skipta við þá sem gerast sekir um mansal, þurfa að axla ábyrgð, segir formaður Starfsgreinasambandsins. Lögreglurannsókn á meintu mansali í Vík er afar umfangsmikil.

Lögreglan handtók á fimmtudag fertugan karlmann í Vík í Mýrdal vegna gruns um að hann hefði haldið tveimur konum sem vinnuþrælum í íbúðarhúsi sínu. Fólkið er allt frá Sri Lanka. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að skýrsla hafi verið tekin af konunum tveimur í gær. Aðspurður um hvort þær þurfi á lögregluvernd að halda segir Oddur að ekki sé talið að konunar séu í hættu.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Oddur segir að maðurinn hafi verið spurður út í sakarefnið en vill ekki gefa upp hvort hann hafi játað. Rannsóknin sé afar umfangsmikil. Afla þurfi ógrynni gagna meðal annars frá Sri Lanka. Þegar þau hafi borist þurfi að yfirheyra manninn að nýju.

Maðurinn er giftur konu frá Sri Lanka sem hefur búið hér á landi í ellefu ár en maðurinn mun skemur. Maðurinn hefur tvívegis verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart konunni vegna heimilisofbeldis og er annað bannið í gildi  og bíður staðfestingar dómstóla. Lögregla hefur ekki tekið skýrslu af eiginkonu mannsins í tengslum við rannsókn mansalsins. Hún hefur ekki réttarstöðu sakbornings.

Fórnarlömb þori ekki að tala við stéttarfélög
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að oft sé erfitt að upplýsa um mansal á vinnumarkaði. „Einstaklingarnir eru oft mjög hræddir og þora ekki að ræða jafnvel við stéttarfélögin eða þá aðila sem eru að athuga þessi mál. Þeir eru hræddir við þann sem er kannski að kúga það. Maður hefur heyrt að menn hafi jafnvel verið látnir fara eða verið sendir úr landi ef menn hafa verið farnir að velta þessum málum eitthvað fyrir sér, þá hafa menn horfið,“ segir Björn. 

Hjónin frá Sri Lanka stofnuðu saman fyrirtækið Vonta International í júlí 2014 og hefur fyrirtækið meðal annars verið undirverktaki hjá Icewear. Það fyrirtæki keypti Víkurprjón vorið 2012. Fyrirtæki hjónanna hafði starfssaðstöðu í húsnæði Icewear á Austurvegi í Vík í Mýrdal. Konunum tveimur sem lögregla frelsaði var hins vegar haldið á heimili mannsins að Víkurbraut. Ágúst Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Icewear, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um málið fyrr en lögreglurannsókn væri lokið. Ágúst segist enga vitneskju hafa haft um mansalið. Tilviljun hafi ráðið því að samningum við manninn hafi verið rift á fimmtudag, sama dag og lögregla handtók manninn og frelsaði tvær konur af heimili hans. Ágúst segir að Icewear líti á sig sem fórnarlamb í málinu. 

Fleiri þurfi að axla ábyrgð
Björn Snæbjörnsson segir að fyrirtæki þurfi að kanna þá sem þau kaupi þjónustu af. Það kunni að vera vísbending ef verðið er mjög lágt. „Mér finnst að það eigi líka að vera meira í ábyrgð þess sem kaupir þjónustuna heldur en bara þess sem selur þjónustuna, mér finnst að aðalfyrirtækið eigi að bera meiri ábyrgð heldur en það gerir í dag. Ef eitthvað er að þá sé ekki bara hægt að beina því að þeim aðila sem er að selja þjónustuna heldur fyrirtækið sem er að kaupa þjónustuna, það þurfi líka að axla ábyrgð,“ segir Björn. 

Rauði krossinn er að undirbúa átak gegn mansali og hefur fengið til þess styrk frá utanríkisráðuneytinu. „Okkar framlag verður a.m.k. til að byrja með að útvíkka starfssvið hjálparsímans 1717. og erum við nú komin langt í þeirri vinnu að undirbúa tæknivinnu og þjálfun starfsfólks sem kemur til með að leiðbeina fórnarlömbum eða fólki sem telur sig vita um dæmi mansals um rétt viðbrögð og hvert er rétt að leita aðstoðar,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.