Áfengisfrumvarpið - ruddaskapur í meirihluta

20.05.2017 - 12:23
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra útskýrir hvers vegna hún sat hjá við atkvæðagreiðslu um ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu 2017 til 2020.
 Mynd: RÚV
Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins er æf yfir framgangi meirihluta Allsherjar- og menntamálanefndar sem hafi rifið áfengisfrumvarpið út úr nefndinni í gær. Það sé gífurlega ruddaleg framkoma því miklar breytingar hafi verið gerðar á því með stuttum fyrirvara. Meðal breytinga er að áfengissala verður aðeins leyfð í sérverslununum.  

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ræddi áfengisfrumvarpið á fundi síðdegis í gær, föstudag. Eygló er fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni. 

„Málið var einfaldlega rifið út úr Allsherjar- og menntamálanefnd. Við fengum mjög viðamiklar breytingatillögur um málið bara stuttu fyrir fund. Við fengum engan tíma til þess að kynna okkur þessar breytingartillögur. En það má svo sem segja í sjálfu sér að þegar menn gera svona miklar breytingar á málinu að þá eru bara flutningsmennirnir sjálfir sem sitja í nefndinni að gefa sínu eigin máli falleinkunn. Og það var ekki brugðist við óskum okkar um umsagnir frá velferðarnefnd um lýðheilsuáhrifin eða fjárlaganefnd varðandi áhrifin á fjárhag ríkisins, tengsl við fjármálaáætlunina. Og við höfum líka verið að biðja forsætisnefnd um að gera úttekt á áhrifum málsins og við höfum ekki fengið svör við því heldur. Þetta er alveg gífurlega ruddaleg framkoma hjá ekki hvað síst þegar maður horfir á nýja flokka eins og Viðreisn og Bjarta framtíð sem hafa talað um mikilvægi þess að breyta vinnubrögðum, að tala saman, að hlusta á ólík sjónarmið en við sjáum hins vegar hér hvernig menn vinna í raun og veru.“

Hvað heldurðu þá að verði?

„Ég held einfaldlega ef menn hafa í hyggju að stórskaða heilsu þjóðarinnar með því að afgreiða þetta mál að þá er bara einfaldlega allt stopp í þinginu. Það getur ekki gengið að menn hagi sér svona og komi svona fram við þing og þjóð.“

Munuð þið þá gera allt stjórnarandstaðan, Framsóknarflokkurinn og þá hinir flokkarnir líka gera allt til þess að stoppa framgang annarra mála?

Við getum einfaldlega ekki leyft eða sem sagt talað fyrir því að menn ætli sér að skaða heilsu þjóðarinnar með því að gera svona viðamiklar breytingar og það sem þeir geta ekki einu sinni haft fyrir því að gefa okkur tækifæri til þess að fara yfir þær breytingatillögur sem þó eru gerðar á málinu.“

Þannig að þið ætlið að láta í ykkur heyra strax á mánudag eða hvað?

„Þetta er það stórt mál, þetta er það mikilvægt máli, þetta er það skaðlegt fyrir þjóðina að það einfaldlega verður að gerast. Það verður að stoppa þetta mál og ég mun gera allt sem að ég get til þess að svo verði.“