Ætlaði að þróa gervihjörtu eins og gervibarka

04.02.2016 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Rannsókn Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi á umdeildum plastbarkaígræðslum verður eingöngu gerð af utanaðkomandi aðilum. Paulo Macchiarini, skurðlæknirinn sem framkvæmdi aðgerðirnar, ætlaði að þróa sambærilegar ígræðslur á gervihjörtum.

Spítalinn tilkynnti í gær að hafin yrði rannsókn á plastbarkaígræðslum sem gerðar voru á spítalanum 2011 til 2013. Íslenskur læknir tók þátt í einni aðgerðinni og landlæknir var á þeim tíma forstjóri spítalans.

Til stóð að rannsókn spítalans yrði að hluta til í höndum sérfræðinga innanhúss og leidd af lækningaforstjóra spítalans. Eftir mikla gagnrýni sendi spítalinn frá sér tilkynningu í gærkvöld um að rannsóknin yrði eingöngu gerð af óháðum aðilum.

Störf Macchiarinis hafa verið rannsökuð áður. Í fyrra var niðurstaða innanhússrannsóknar Karólínska háskólans að aðferðir læknisins samræmdust ekki hæstu kröfum stofnunarinnar en hann hefði ekki gerst sekur um fúsk. Í svari háskólans við fyrirspurn fréttastofu RÚV segir að meðferð yfirstjórnar háskólans á máli Macchiarinis verði rannsökuð. Til greina komi einnig að opna aftur fyrri rannsókn háskólans á störfum læknisins.

Lögreglurannsókn í gangi

Saksóknari í Svíþjóð staðfestir við fréttastofu að skurðaðgerðir Macchiarinis séu til rannsóknar hjá lögreglu og embætti saksóknara. Ekki fékkst upp gefið að hvaða þáttum aðgerðanna eða persónum rannsókn lögreglu beinist.

Ætlaði að búa til gervihjörtu

Dagens nyheter greinir frá því að Macchiarini hafi árið 2011 fengið rannsóknarstyrk til að búa til gervihjörtu. Sænska vísindaráðið veitti Macchiarini jafnvirði 27 milljóna íslenskra króna til að nýta þekkingu á gervibörkum úr plasti til að búa til samskonar gervihjörtu. Samtímis fékk hann sem svarar 105 milljónum íslenskra króna til rannsókna á gervibörkum úr plasti.

Macchiarini hefur grætt plastbarka í átta manns. Sex eru látnir. Ekkert bendir til að aðferð Macchiarinis geti virkað.