Ætla að breyta togara í fljótandi gistiheimili

11.03.2016 - 22:48
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Hópur athafnamanna ætlar að kaupa togarann Bjart NK-121 af Síldarvinnslunni í Fjarðabyggð og breyta honum í fljótandi gistiheimili. Hópurinn sótti um leyfi til að leggja skipinu við Reykjavíkurhöfn en stjórn Faxaflóahafna ákvað að hafna þeirri ósk en hafnarstjóra var falið að ræða málið frekar við hópinn.

Í erindi hópsins til Faxaflóahafna kemur fram að athafnamennirnir ætli ekki að láta eitt skip nægja því „ef vel tekst til sjáum við fyrir okkur að óska eftir plássi fyrir fleiri skip og þar með búa til minningarreit fyrir íslensk skip.“ 

Í bréfinu enn fremur fram að til standi að koma Bjarti í slipp þar sem skipið yrði undirbúið fyrir að koma því á varanlegan stað, helst að hluta til á landi.  Þá á að bæta við um 25 klefum á millidekki  en á dekki yrði veitingastaður, í lest gallerý og í brúnni yrði svo bar. „Einnig er áætlað að í skipinu verði minjagripabúð og verður skipið opið gangandi vegfarendum sem vilja skoða skipið eða fá sér kaffibolla.“

Meðal þeirra sem koma að þessu verkefni eru Páll Eyjólfsson, oftast kenndur við umboðsskrifstofuna Prime, Hálfdán Steinþórsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og Jóhann Friðrik Haraldsson, eigandi Laundromat.  

Þeir sögðust helst vilja hefja jarðvinnu út á Granda í sumar þar sem þeir fái skipið afhent í lok sumar. Síðan sé stefnt að opnun Bjarts sem fljótandi gistiheimilis á vor mánuðum 2017.  

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV